Fréttir

Thomas í forystu þrátt fyrir „verstu upphitun ferilsins“
Justin Thomas.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 15. ágúst 2019 kl. 22:01

Thomas í forystu þrátt fyrir „verstu upphitun ferilsins“

Justin Thomas jafnaði vallarmetið á Medinah golfvellinum í dag þegar hann lék fyrsta hringinn á BMW Championship mótinu á 7 höggum undir pari eða 65 höggum.

Í viðtali við Golf Channel eftir hring sagði Thomas að spilamennskan hafi komið á óvart þar sem upphitunin hafi gengið illa hjá honum.

„Ég myndi segja að þetta hafi verið versta upphitun sem ég hef á ævinni átt núna í morgun,“ sagði Thomas. „Ég vissi ekki hvað boltinn myndi gera, ég vissi ekki hvernig ég ætti að slá. Ég og pabbi sögðum hvor við annan að við þyrftum að giska úti á velli og reyna að finna eitthvað.“

Það gekk svo sannarlega en Thomas fékk sjö fugla og tapaði ekki höggi. Skorið hans, 65 högg, var jöfnun á vallarmeti sem þeir Skip Kendall (1999), Mike Weir (2006) og Tiger Woods (2006) deildu. Seinna í dag jafnaði svo Jason Kokrak metið þegar hann kom einnig inn á 7 höggum undir pari. Líklega leið þeim þó ekki jafn illa yfir boltanum og Thomas fyrir hringinn.

„Ég gat ekki slegið bolta,“ sagði Thomas. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég væri að gera.“

„Þetta hefur stundum gerst hjá mér en ekki svona ýkt. Ég er yfirleitt góður í að komast í gegnum golfvöllinn [þrátt fyrir að slá illa] en bjóst alls ekki við þessu í dag.“

Staðan eftir fyrsta keppnisdag á BMW Championship:

1. Justin Thomas, -7
1. Jason Kokrak, -7
3. Jim Furyk, -6
3. Joel Dahmen, -6
3. Lucas Glover, -6
3. Brandt Snedeker, -6

Hér er hægt að sjá stöðuna í heild sinni.

View this post on Instagram

Ties course record.

A post shared by PGA TOUR (@pgatour) on