Fréttir

Þorsteinn lagði Úlfar í einvígi Golfkastsins
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 30. apríl 2020 kl. 11:37

Þorsteinn lagði Úlfar í einvígi Golfkastsins

Hlaðvarpsþátturinn Golfkastið í umsjá Sigmundar Einars Mássonar og Þórðar Rafns Gissurarsonar stóð fyrir beinni útsendingu á Facebook og Youtube þar sem golflýsendurnir og stórkylfingarnir Úlfar Jónsson og Þorsteinn Hallgrímsson tóku þátt í Einvíginu sem var keppni í anda Gettu Betur um hver væri fróðari um golf. Úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin þegar Úlfar vantaði nafn á Íslandsmeistara í höggleik karla.

„Þetta var búið að blunda aðeins í okkur Simma í einhvern tíma að hafa slíka keppni. Breyta aðeins til frá þessum venjulegu podkast þáttum sem við höfum verið með síðustu vikur,“ segir Þórður. „Við vorum svo heppnir að fá Þorstein og Úlfar með okkur í lið en þeir eru með eindæmum fróðir og líka einstaklega skemmtilegur og með margar sögur sem við vissum að þeir myndu deila með okkur og áhorfendum. Endaði þetta svo með mikilli dramatík sem gerði þetta allt saman enn betra“.

Þátturinn var tekinn upp í húsakynnum Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og þess gætt að tveir metrar voru á milli manna. „GKG hafa verið svo frábærir að leyfa okkur að nýta sér aðstöðu golfklúbbsins til að taka upp hlaðvarpsþættina og núna þessa keppni. Venjulega höfum við verið í litlu fundarherbergi til að taka upp þættina fyrir utan síðustu þrjá eða fjóra þætti út af samkomubanninu. Svona þáttur er miklu flóknari í uppsetningu en við erum vanir. Fengum stórt fundarherbergi til afnota hjá GKG svo að af þessu gæti orðið. Simmi er tæknigúrúinn af okkur tveimur og var búinn að standa í því í nokkurn tíma að gera allt tilbúið og sjá til þess að allt rúllaði vel. Ég sá bara um spurningarnar og var spyrill. Fékk léttara hlutverkið sem betur fer enda kann ég ekkert að setja upp svona lagað.“

Þeir félagar höfðu ekki hugmynd um hvernig þetta myndi ganga og hversu margir hefðu áhuga á þessu. „Við runnum dálítið blint í sjóinn með keppnina en vissum að ef við fengjum Steina og Úlla þá hlytum við að fá gott áhorf. Svo gekk þetta vonar framar og í heildina voru 400 manns sem höfðu horft á keppnina. Síðustu tvo daga hefur fólk verið að horfa á keppnina en mögulegt er að horfa á hana núna fyrir þá sem vilja kíkja á þetta. Það hafa þó nokkrir haft samband við okkur og lýst ánægju sinni með þetta framtak sem var gaman að heyra. Held að við séum komnir með tæplega 1500 áhorf sem er frábært“.

Ætla þeir félagar að standa fyrir annarri svipaðri keppni í nánustu framtíð?

„Það er aldrei að vita. Við lærðum heilmikið af þessari keppni. Simmi er með þetta allt á hreinu núna varðandi uppsetninguna og ég með betri hugmyndir varðandi spurningarnar. Við höfum verið að fá nokkur ummæli þess efnis að spurningarnar hafi verið of erfiðar. Gæti vel verið en okkur Simma fannst þær sanngjarnar. Bara blanda af léttum og ekki svo léttum spurningum. Þurfti nú aðeins að láta þá Úlla og Steina svitna“.

Eru þeir komnir með aðra keppendur fyrir næstu keppni?

„Nei við erum ekki komnir með neina aðra að svo stöddu en ætlum að spyrja nokkra einstaklinga sem við vitum að eru miklir viskubrunnar. Ef það eru einhverjir aðrir sem telja sig geta gert gott mót endilega hafið samband við okkur á Facebook síðu Golfkastsins“.