Fréttir

Þriðja holan sú ofmetnasta
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 3. desember 2020 kl. 11:33

Þriðja holan sú ofmetnasta

Stjórn Golfklúbbs Ness hefur ákveðið að fresta aðalfundi félagsins 2020 þar til eftir áramót þar sem ekki er mögulegt að halda aðalfund með hefðbundnum hætti vegna fjöldatakmarkana sóttvarnaryfirvalda. Þetta kemur fram á heimasíðu klúbbsins.

Ársskýrsla og endurskoðaðir reikningar félagsins eru engu að síður aðgengilegir á heimasíðu klúbbsins og þar má sjá ýmsa áhugaverða punkta.

Til að mynda vann klúbburinn greiningarvinnu á holum Nesvallarins upp úr skori í mótum á árinu 2020. Fram kemur að allar níu holur vallarins hafi náð einhverri sérstöðu og þá voru holurnar bornar saman við forgjöf vallarins til gamans.

Hér fyrir neðan má sjá erfiðleikastuðul hverrar holu úr ársskýrslu Nesklúbbsins:


Líkt og fram kemur í töflunni spilaðist 4. holan erfiðust en sú hola er stutt par 4 hola sem liggur í hundslöpp til vinstri. Auðveldasta holan var 1. holan sem ætti nú ekki að koma mörgum á óvart enda fáar hættur á henni.

„Oft má læra eitt og annað þegar tölur eru skoðaðar ofan í kjölinn,“ segir í ársskýrslu klúbbsins. „Miðað við tölurnar í mótum sumarsins mætti til dæmis draga þann lærdóm fyrir 95,7% meðlima klúbbsins að það væri ráðlagt að leggja upp með 5 högg á fjórðu holu. Hins vegar eru þetta jú bara tölur og það er nú marg sannað í golfinu að það er svo miklu einfaldara að tala um hlutina en að framkvæma þá!“ 

Holurnar fengu allar nöfn eftir greiningarvinnuna sem má sjá í listanum hér fyrir neðan. Athygli vekur að 3. holan á vellinum er talin sú ofmetnasta en það er vegna þess að fjórar holur spiluðust erfiðari á árinu þrátt fyrir að hún sé númer 1 í forgjafarlistanum.

1. Arnar holan
2. Par holan
3. Sprengju holan, en á sama tíma sú ofmetnasta
4. Erfiðasta holan
5. Skolla holan
6. Tvöfalda skolla holan
7. Albatross holan
8. Fugla holan
9. Vanmetna holan