Fréttir

Þriðja risamót ársins hefst á fimmtudaginn
Hannah Green sigraði á mótinu í fyrra.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 7. október 2020 kl. 23:26

Þriðja risamót ársins hefst á fimmtudaginn

Á morgun, fimmtudag, hefst þriðja risamót ársins í kvennagolfinu þegar KPMG Women's PGA meistaramótið hefst hjá Aronimink golfklúbbnum í Pennsylvania fylki í Bandaríkjunum.

Allir bestu kylfingar heims eru mættir til leiks en það er Hannah Green sem hefur titil að verja. Green lék á 9 höggum undir pari í mótinu í fyrra og fagnaði sínum fyrsta risatitli þegar hún varð höggi á undan Sung Hyun Park sem hafði einmitt titil að verja.

Frá því að Green sigraði á PGA meistaramótinu í fyrra hefur hún einu sinni staðið uppi sem sigurvegari, á Cambia Portland Classic mótinu, en hún stefnir væntanlega á að verja titilinn um helgina.

Árið 2017 sigraði Danielle Kang á KPMG PGA meistaramótinu en hún er í dag í efsta sæti stigalistans á LPGA mótaröðinni og verður að teljast líkleg til sigurs í ár.

Á árinu hafa tvö risamót nú þegar farið fram en Sophia Popov sigraði á Opna breska mótinu og Mirim Lee sigraði á ANA Inspiration. PGA meistaramótið er vanalega fjórða risamót ársins en Evian meistaramótið fór ekki fram í ár vegna ástandsins í heiminum.

Hér er hægt að sjá keppendalista mótsins í ár.

Sigurvegarar síðustu ára:

2019: Hannah Green
2018: Sung Hyun Park
2017: Danielle Kang
2016: Brooke M. Henderson
2015: Inbee Park
2014: Inbee Park
2013: Inbee Park
2012: Shanshan Feng
2011: Yani Tseng
2010: Cristie Kerr