Fréttir

Þrír jafnir á toppnum á TOUR Championship
Xander Schauffele.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 22. ágúst 2019 kl. 21:58

Þrír jafnir á toppnum á TOUR Championship

Fyrsti hringur TOUR Championship mótsins á PGA mótaröðinni fór fram í dag á East Lake vellinum í Atlanta. Mótið er lokamót tímabilsins á mótaröðinni og ræður úrslitum um það hver endar sem FedEx stigameistari.

Áður en kylfingar hófu leik í dag var búið að gefa þeim forgjöf út frá stöðu þeirra á stigalistanum fyrir lokamótið og er þetta í fyrsta skiptið sem það er gert.

Staðan fyrir fyrsta hringinn var því eftirfarandi:

1. Justin Thomas (-10)
2. Patrick Cantlay (-8)
3. Brooks Koepka (-7)
4. Patrick Reed (-6)
5. Rory McIlroy (-5)
26.-30. (Par)

Ólíkt því sem fjölmargir spáðu fyrir fram má búast við mikilli spennu með þessu nýja fyrirkomulagi næstu daga því eftir fyrsta keppnisdaginn eru þrír kylfingar jafnir í efsta sæti á 10 höggum undir pari. Það eru þeir Justin Thomas, Brooks Koepka og Xander Schauffele, sem lék manna best í dag.

Rory McIlroy er einungis höggi á eftir efstu mönnum en hann lék á 4 höggum undir pari í dag og er því á 9 höggum undir pari í heildina.

Ríkjandi FedEx stigameistari, Justin Rose, er jafn í 13. sæti á 4 höggum undir pari.

Annar hringur mótsins fer fram á morgun, föstudag. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Staða efstu manna:

1. Xander Schauffele, Brooks Koepka, Justin Thomas (-10)
4. Rory McIlroy (-9)
5. Matt Kuchar, Patrick Cantlay (-8)
7. Hideki Matsuyama (-7)