Fréttir

Tvö jöfn á toppnum í sögulegu móti á Evrópumótaröð karla og kvenna
Christine Wolf.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 10. júní 2021 kl. 20:39

Tvö jöfn á toppnum í sögulegu móti á Evrópumótaröð karla og kvenna

Það var söguleg stund í dag þegar 156 kylfingar, 78 konur og 78 karlar, hófu leik á Scandinavian Mixed mótinu sem haldið er af Anniku Sörenstam og Henrik Stenson. Mótið er haldið í sameiningu af Evrópumótaröð karla og Evrópumótaröð kvenna og eru allir kylfingarnir að keppa um sama verðlaunafé. Að loknum fyrsta degi eru þau Christine Wolf og Sam Horsefield jöfn á toppnum á samtals átta höggum undir pari.

Wolf, sem á einn sigur að baki á Evrópumótaröð kvenna, lék sinn besta hring á ferlinum í dag þegar hún kom í hús á 64 höggum, eða átta höggum undir pari. Hún fékk sex fugla í dag, einn örn og restina af holunum paraði hún. Horsefield var sömuleiðis í miklu stuði í dag og fékk hann níu fugla en á móti fékk hann einn skolla.

Fjórir karlar eru jafnir í þriðja sætinu á sjö höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Sam Horsefield.