Úr atvinnugolfi í framkvæmdastjórastöðu Golfklúbbs Borgarness
Dreymir um að Hamarsvöllur hýsi Íslandsmótið í höggleik
„Það var frábært tækifæri fyrir mig að taka við framkvæmdastjórn míns golfklúbbs, ég var búinn að reyna fyrir mér í atvinnugolfinu og þar sem ég er kominn með fjölskyldu, fannst mér rétt að komast í örugga vinnu. Það er fullt af tækifærum hjá Golfklúbbi Borgarness og mikill meðbyr með klúbbnum þessar vikurnar og mánuðina,“ segir Íslandsmeistarinn í höggleik árið 2020 og framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness, Bjarki Pétursson. Eftir að hafa landað eftirsóttasta titlinum í íslensku golfi árið 2020, reyndi Bjarki fyrir sér í atvinnumennsku, spilaði bæði á Challenge tour og Nordic-túrnum og var oft nálægt því að spila sig upp um túra.

Honum bauðst að taka við framkvæmdastjórastöðu síns heimaklúbbs í fyrra og þurfti ekki að hugsa sig lengi um. Golfvöllur Borgnesinga, Hamarsvöllur, var óvenjufljótur til í vor og vill Bjarki þakka vallarstarfsmönnum fyrir frábær störf á síðasta sumri. Mikil fjölgun hefur verið í klúbbnum á þessu ári, um 180 nýjir meðlimir og mikill meðbyr.
„Það eru rétt undir 500 fullorðnir í klúbbnum og svo eru 40-50 börn að æfa. Það búa um 2200 manns í Borgarnesi og með Borgarbyggðinni er eitthvað meira svo að vera með 500 meðlimi telst nokkuð hátt hlutfall ef miðað er við hina skemmtilegu höfðatölu. Þó nokkuð margir eru með aukaaðild hjá okkur en umferð almennra kylfinga, þ.e. þeirra sem borga vallargjald, hefur oft verið meiri en klúbbmeðlima, það er auðvitað jákvætt og held ég að mér sé óhætt að segja að andinn hefur verið mjög góður hjá okkur í sumar. Við gátum opnað Hamarsvöllinn mun fyrr en áður, bæði var tíðin góð en það má líka ekki gleyma frábæru starfi Halla vallarstjóra og annarra vallarstarfsmanna. Hverjum þykir sinn fugl fagur en ég persónulega er mjög hrifinn af Hamarsvelli, fjölbreyttur og skemmtilegur, það hlýtur eitthvað að vera til í því m.v. ásóknina á hann í sumar. Einnig talar fólk mjög mikið um gróðurinn og fegurðina sem er á okkar svæði, og þar eigum við GB-ingar Ebbu mikið að þakka, enda sér hún um það svið.“
Íslandsmótið í höggleik?
Bjarki sem er afrekskylfingur, dreymir um að Íslandsmótið í höggleik fari einhvern tíma fram á Hamarsvelli en þá þyrfti að lengja hann.
„Ég er ekkert feiminn við að viðurkenna að afrekskylfingnum í mér dreymir um að hægt sé að halda Íslandsmótið í höggleik hjá okkur en Íslandsmótið í holukeppni hefur farið fram í Borgarnesi. Til að geta haldið Íslandsmót í höggleik þyrftum við að geta lengt völlinn á öftustu teigum í 6000-6400 metra en hann er ekki nema um 5500 af öftustu teigum í dag. Ef þú spyrð mig út í Íslandsmótið í ár þá nei, ég mun ekki taka þátt og hef ekki gert síðan ég varð Íslandsmeistari árið 2020. Eftir það reyndi ég við atvinnumanninn og þá fór allur minn fókus í það verkefni. Ég kom heim í fyrra og það hefur einfaldlega verið nógu mikið að gera hjá mér síðan ég tók við og lítill tími til æfinga. Ég myndi ekki vilja taka þátt í móti hinna bestu nema ég hefði tilfinningu fyrir því að ég gæti keppt og til að ná árangri á hæsta getustigi, þarf einfaldlega að æfa. Ég hef ekki haft mikinn tíma í það í sumar og hef ekki getað spilað mikið golf, eitthvað þó. Ég gat tekið þátt í meistaramótinu okkar og hafði mikið gaman af,“ segir Bjarki en hér er hægt að lesa frétt kylfings um mótið: Umfjöllun Kylfings um Meistaramót GB

Kylfusveinn Gunnlaugs Árna í US amateur open
Það hefur verið nóg að gera hjá Bjarka í sumar og því verður kærkomið fyrir hann að komast aðeins í burtu en hann ætlar að borga Gunnlaugi Árna Sveinssyni til baka í US amateur open sem fram fer dagana 11-17. ágúst. Gunnlaugur var kylfusveinn fyrir Bjarka fyrir nokkrum árum þegar Bjarki var að keppa á úrtökumótum fyrir DP world túrnum og sagðist Gulli hafa lært mikið af því. Bjarka hlakkar til að endurgreiða Gulla.

„Það verður æðislegt að komast aðeins í burtu. Ég elska starfið mitt en starf okkar framkvæmdastjóranna er ansi annasamt yfir sumarið og því verður gott að geta slökkt á síma og tölvupósti og halda á pokanum fyrir Gulla. Hann hélt á pokanum fyrir mig fyrir nokkrum árum og vildi ég endilega launa honum til baka. Það verður gaman að fylgjast með Gulla og vera honum til halds og trausts, hann er að mínu mati langmesta efni sem hefur komið fram í íslensku golfi en staða hans á áhugamannalistanum staðfestir það. Hann er ekki síst sterkur andlega, það er jú ekki minni hluti af leiknum vilja sumir meina. M.v. fyrsta ár Gulla í háskólagolfinu og hversu miklu lengra hann náði m.v. markmiðin sem hann setti sér, þá verður fróðlegt að fylgjast með honum í framtíðinni.
Hvað mig og mitt golf varðar, afrekskylfingurinn er kominn á bekkinn í bili en ég er bara þrítugur og á því nóg eftir. Hver veit nema ég helli mér aftur á fullt í golfið og stefni á að keppa á meðal þeirra bestu hér á landi en ég held að atvinnumannadraumurinn sé tímabundið kominn á ís, ég er í frábæru starfi hjá mínum uppeldisklúbbi og hlakka mikið til að byggja hann áfram upp. Það yrði gaman að geta stækkað völlinn svo við getum fengið stærstu mótin til okkar, góðir hlutir gerast hægt,“ sagði Bjarki að lokum.