Fréttir

Urriðavöllur stækkar í 27 holur
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra staðfesti friðlýsinguna með undirritun en hér er hann á mynd með fulltrúum Garðabæjar og Oddfellowa. Kylfingur.is/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 11. janúar 2024 kl. 11:02

Urriðavöllur stækkar í 27 holur

Fólkvangur friðlýstur í Urriðakotshrauni í Garðabæ

Gert er ráð fyrir að Urriðavöllur stækki úr 18 holum í 27 samhliða friðlýsingu Urriðakotshrauns í Urriðavatnsdölum. Hana staðfesti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra, með undirritun sinni á Urriðavelli í gær.

Friðlýsingin er samstarfsverkefni Garðabæjar, Umhverfisstofnunar og Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar á Íslandi, en hann er eigandi golfvallarins og landsins og í fyrsta skipti sem fólkvangur í landi í einkaeigu er friðlýstur er hér á landi. Golfvallarsvæðið er í umsjá Golfklúbbsins Odds, aðildarfélags Golfsambands Íslands.

Urriðakotshraun er með þessu friðlýst sem fólkvangur, en í honum er gert ráð fyrir fjórum viðbótarbrautum golfvallarins. Reiknað er með að stækka völlinn í þrjár áttir og tengja nýjar golfbrautir við þær sem fyrir eru svo allar þrjár 9-holu lykkjur hins stækkaða vallar muni byrja og enda við klúbbhús.

Vallarstækkun var skipulögð af Edwin Roald golfvallahönnuði, í samstarfi við ráðgjafarstofuna ALTA, í umboði Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar og landnýtingarnefndar hans, með aðkomu Odds. Um verkefnið segir Edwin:

„Með stækkun má segja að við komumst nærri því að fullnýta möguleika svæðisins til golfiðkunar og að til verði einstakur golfvöllur á heimsmælikvarða, með áherslu á almennan golfleik, aðra útivist, lýðheilsu og náttúru- og menningararf. Með heildarskipulagi svæðisins opnum við það jafnvel enn betur en nú er, fyrir öðru útivistarfólki en kylfingum, með viðbótum við stígakerfi og endurbótum á eldri stígum. Þarna verður því til einstök útivistar- og náttúruperla, nánast í þéttbýlinu. Ekki skemmir fyrir að golfvöllurinn verður um leið kærkominn vettvangur stórra alþjóðlegra golfmóta, en úr holunum 27 má útbúa samsettan, lengri 18-holu völl með upphitunarsvæði og annarri aðstöðu fyrir slíka viðburði.

Þær breytingar, sem nauðsynlega þarf að gera á núverandi velli til að tengja nýjar brautir við þær sem fyrir eru, svo við fáum þrjár jafngóðar 9-holu lykkjur með tengingu við skála, krefjast hvorki vallarlokunar né leiks á bráðabirgðaflötum. Við fyrstu sýn virðast breytingarnar, sem sýndar eru á uppdrætti okkar, umfangsmeiri en þær eru í raun þegar betur er að gáð, auk þess sem uppdrátturinn sýnir einfaldlega mestu mögulegu breytingar sem við sjáum fyrir okkur. Umfang þeirra mun síðan ráðast af forsendum í kringum okkur og áherslum okkar eftir því sem verkefnið þróast.”

Frumhönnun gerir einnig ráð fyrir möguleika til að þróa Ljúfling frekar og tengja hann betur við skála. Þannig yrði til golfsvæði með þremur 9-holu lykkjum, áþekkum að gæðum, stutta vellinum Ljúflingi og æfingasvæði, öllu með tengingu við skála.

Urriðakotshraun liggur á milli Vífilstaðahlíðar og Urriðavallar. Markmið stofnunar fólkvangsins er að festa Urriðakotshraun og nánasta umhverfi þess í Urriðvatnsdölum í sessi sem aðlaðandi útivistarsvæði, með öflugu stígakerfi og aðstöðu til golfiðkunar samhliða vernd einstakrar náttúru, menningarminja og landslags. Friðlýsingin og fyrirhuguð stækkun Urriðavallar er í samræmi við náttúruverndarlög, sem heimila friðlýsingu landsvæða til útivistar og almenningsnota sem fólkvang. Þekktasta dæmi þess er skíðasvæðið í fólkvanginum í Bláfjöllum.

Eitt höfuðmarkmið Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa er að vinna að aukinni lýðheilsu meðal landsmanna. Því fellur það vel að markmiðum landeiganda að afhenda endurgjaldslaust hundruð hektara lands í jaðri höfuðborgarsvæðisins til útivistar öllum almenningi. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa leggur fram land til friðlýsingar. Sjóðurinn á hluta af landi Selgjár, sem var ásamt Búrfelli og Búrfellsgjá friðlýst sem náttúruvætti í júní 2020 og kom árið 2014 að friðlýsingu Vífilstaðahrauns og Maríuhella.

Svona lítur Urriðavöllur út, 27 holur. Á neðri myndinni má sjá Forsetavöllinn - 6700 metrar og gæti þannig með þessa lengd og erfiðleikastuðul hýst alþjóðlegt stórmót atvinnumanna.