Örninn #galvin
Örninn #galvin

Fréttir

Úrtökumótin: Fín byrjun hjá íslenska hópnum í Þýskalandi
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 10. september 2019 kl. 13:58

Úrtökumótin: Fín byrjun hjá íslenska hópnum í Þýskalandi

Sex íslenskir kylfingar hófu í dag leik á 1. stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð karla sem haldið er í Fleesensee í Þýskalandi. Axel Bóasson byrjaði best af íslenska hópnum og er jafn í 3. sæti þegar flestir kylfingar hafa lokið leik á fyrsta keppnisdegi.

Axel fékk alls þrjá fugla og einn skolla á hringnum og kom inn á 70 höggum eða tveimur höggum undir pari. Á tímabili var Axel kominn þrjá undir par en fékk skolla á 18. holu.

Andri Þór Björnsson og Bjarki Pétursson voru á næst besta skorinu af íslenska hópnum en þeir komu inn á pari vallarins og eru jafnir í 17. sæti.

Líkt og Kylfingur greindi frá í vikunni komast um 20% kylfinga áfram af hverjum mótsstað á 1. stigi úrtökumótanna. Gera má ráð fyrir því að 16 komist áfram í Þýskalandi en 84 kylfingar hófu leik í morgun.

Skor íslensku kylfinganna eftir fyrsta keppnisdaginn:

3. Axel Bóasson, -2
17. Andri Þór Björnsson, 0
17. Bjarki Pétursson, 0
27. Rúnar Arnórsson, +1
27. Aron Snær Júlíusson, +1
59. Ragnar Már Garðarsson, +4

Staðan í mótinu.