Fréttir

Úrtökumótin: Íslensku kylfingarnir flestir í fínum málum fyrir lokahringinn
Axel lék frábært golf í dag.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 12. september 2019 kl. 14:07

Úrtökumótin: Íslensku kylfingarnir flestir í fínum málum fyrir lokahringinn

Rúnar Arnórsson, Axel Bóasson, Bjarki Pétursson, Andri Þór Björnsson, Ragnar Már Garðarsson og Aron Snær Júlíusson léku í dag þriðja og næst síðasta hringinn á 1. stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð karla sem haldið er í Fleesensee í Þýskalandi.

Fimm af íslensku kylfingunum eru undir pari fyrir lokahringinn og eiga því fínan möguleika á að komast áfram. Aron Snær var sá eini sem var yfir pari en hann var á tveimur höggum yfir pari og komst því ekki í gegnum niðurskurðinn eftir þrjá hringi.

Rúnar er efstur af íslenska hópnum en hann er á 7 höggum undir pari eftir hringina þrjá. Rúnar lék þriðja hringinn á höggi undir pari og féll þrátt fyrir það niður um 5 sæti og er í 9. sæti.

Axel og Bjarki koma næstir á 5 höggum undir pari í heildina og jafnir í 19. sæti. Axel lék frábært golf í dag og kom inn á 5 höggum undir pari á meðan Bjarki heldur áfram að leika jafnt og stöðugt golf og kom inn á 2 höggum undir pari.

Andri Þór lék einnig vel í dag en hann kom inn á 4 höggum undir pari og er á 4 höggum undir pari í heildina. Andri er jafn í 21. sæti. Að lokum er Ragnar Már jafn í 36. sæti á höggiu undir pari.

Fyrir mótið hafði Evrópumótaröð karla gefið út að um 20% kylfinga úr 1. stigs úrtökumótunum kæmust áfram á 2. stigið eftir fjóra hringi. Ekki hefur staðfest tala verið tilkynnt í Þýskalandi en búast má við að um 16 kylfingar haldi áfram eftir morgundaginn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Skor íslensku kylfinganna:

9. Rúnar Arnórsson, 73, 65, 71 -7
19. Axel Bóasson, 70, 74, 67 -5
19. Bjarki Pétursson, 72, 69, 70 -5
21. Andri Þór Björnsson, 72, 72, 68 - 4
36. Ragnar Már Garðarsson, 76, 68, 71 -1
Úr leik: Aron Snær Júlíusson, 73, 72, 73 +1