Fréttir

Úrtökumótin: Íslensku strákarnir halda áfram í vikunni
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 4. nóvember 2019 kl. 21:51

Úrtökumótin: Íslensku strákarnir halda áfram í vikunni

Annað og næst síðasta stig úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröð karla í golfi fer fram dagana 7.-10. nóvember. Alls komust fimm íslenskir kylfingar á annað stigið í ár en keppt verður á fjórum golfvöllum víðs vegar um Spán.

Kylfingarnir sem um ræðir eru þeir Andri Þór Björnsson, Bjarki Pétursson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús og Rúnar Arnórsson.

Um 75 keppendur spila á hverjum velli og komast um 20 efstu áfram á lokaúrtökumótið eða 3. stigið sem fram fer 15.-20. nóvember á Lumine golfvellinum skammt frá Barcelona.

Í öðru stiginu spilar Haraldur Franklín á Alenda golfsvæðinu í Alicante. Haraldur komst áfram úr 1. stigs úrtökumóti í Austurríki en þetta er í fjórða skiptið sem GR-ingurinn kemst á 2. stigið. Hingað til hefur Haraldur ekki komist á þriðja stigið en hann hefur sjaldan eða aldrei verið í jafn góðu formi og í ár.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Andri Þór Björnsson og Rúnar Arnórsson keppa allir á Desert Springs vellinum. Andri Þór og Rúnar komust áfram á 2. stigið eftir flottan árangur í Þýskalandi á fyrsta stiginu en Guðmundur komst beint inn á 2. stigið þökk sé frábærri spilamennsku á Nordic Golf mótaröðinni þar sem hann stóð þrisvar uppi sem sigurvegari.

Að lokum verður Bjarki á Bonmont golfvellinum en hann komst líkt og Rúnar og Andri Þór í gegnum úrtökumótið í Þýskalandi. Bjarki tryggði sér nýverið þátttökurétt á Nordic Golf mótaröðinni en reikna má með því að hann gerist atvinnukylfingur í haust sama hvernig fer í úrtökumótunum fyrir Evrópumótaröðina.

Hér verður hægt að fylgjast með skori allra íslensku kylfinganna en Kylfingur mun greina frá skori keppenda alla keppnisdagana.


Bjarki Pétursson.


Andri Þór Björnsson.


Haraldur Franklín Magnús.


Rúnar Arnórsson.