Örninn #galvin
Örninn #galvin

Fréttir

Valdís í 71. sæti á uppfærðum stigalista
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 1. desember 2019 kl. 19:38

Valdís í 71. sæti á uppfærðum stigalista

Lokamót tímabilsins á Evrópumótaröð kvenna fer fram dagana 5.-8. desember í Kenía. Eftir það mót verður ljóst hvaða kylfingur stendur uppi sem stigameistari og hvaða kylfingar halda keppnisrétti sínum á mótaröðinni.

Fyrir lokamótið er Valdís Þóra Jónsdóttir GL í 71. sæti á stigalistanum en 70 efstu keppendurnir halda þátttökurétti sínum. Valdís þarf því að leika vel í lokamótinu til þess að halda keppnisrétti sínum.

Valdís tók þátt á Opna spænska mótinu um nýliðna helgi og komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir að hafa leikið fyrstu tvo hringina á 9 höggum yfir pari. Hún hefur líklega unnið í því sem betur mátti fara síðan þá og mætir sterkari til leiks í lokamót tímabilsins á fimmtudaginn.

Marianne Skarpnord frá Noregi er sem fyrr í efsta sæti stigalistans á Evrópumótaröðinni með 687 stig úr 17 mótum. Esther Henseleit er í öðru sæti með 510 stig en sigurvegari helgarinnar Anne Van Dam er kominn upp í 7. sæti með 392 stig.

Staða efstu kylfinga á stigalistanum:

1. Marianne Skarpnord, 687
2. Esther Henseleit, 593
3. Nuria Iturrioz, 510
4. Christine Wolf, 505
5. Meghan MacLaren, 447
6. Caroline Hedwall, 415
7. Anne Van Dam, 392
8. Olivia Cowan, 376
9. Laura Fuenfstueck, 312
10. Karolin Lampert, 280

Hér er hægt að sjá stöðuna á stigalista Evrópumótaraðar kvenna.