Fréttir

Valdís Þóra útskrifaðist sem tækniteiknari samhliða atvinnumennskunni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 21. janúar 2020 kl. 11:55

Valdís Þóra útskrifaðist sem tækniteiknari samhliða atvinnumennskunni

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur frá Akranesi útskrifaðist sem tækniteiknari í maí á síðasta ári en námið stundaði hún samhliða keppni og æfingum á Evrópumótaröð kvenna.

Valdís hóf námið í janúar 2018 í 7 áföngum og segir í pistli á klefinn.is að kennarar hafi verið mjög liðlegir og hafi haft próf og tímakannanir opnar lengur fyrir hana þar sem hún var á þessum tíma stödd í Ástralíu við keppni. Valdís segir að hún hafi fengið frábærar viðtökur hjá skólastjóra Byggingatækniskólans, Gunnari Kjartanssyni í desember 2017 og hann hafi tekið vel í hugmyndina. Hún fékk frjálsa mætingu í skólann og þjálfarar hennar í golfinu tóku líka vel í hugmyndina sem þeim fannst frábær. Árið 2018 gekk henni mjög vel í keppnum þó hún væri á sama tíma að læra. Valdís skrifar skemmtilegan pistil um þetta á klefinn.is og hér grípum við í lokakaflann á honum:

Ég útskrifaðist svo sem tækniteiknari í maí 2019. Þrjár strangar annir af miklu skipulagi og vinnu að baki. Þrjár annir af skilningsríkum kennurum sem studdu við bakið á mér, ekki bara í náminu heldur í íþróttinni líka. Þrjár annir af þakklæti. Ég er ofboðslega þakklát kennurum og skólastjóra Byggingatækniskólans fyrir að hafa gefið mér tækifæri á að mennta mig meira samhliða atvinnumennskunni. Þetta er hægt ef viljinn er fyrir hendi, bæði hjá nemandanum/íþróttamanninum og skólanum. Við þurfum fleiri kennara og skólastjóra eins og þá sem ég var svo heppin að hafa í Tækniskólanum. Við þurfum meiri sveigjanleika í skólakerfinu á Íslandi þar sem stutt er við menntun afreksíþróttamanna. Við þurfum meira nám þar sem nemendur yfir höfuð geta tekið á sínum hraða án þess að líða fyrir það. Það þurfa ekki allir að taka 7 áfanga á önn eins og ég gerði, fyrir mér var það bara raunverulegur möguleiki þó svo í fyrstu hafi ég verið stressuð yfir því.