Nettó - Samkaup
Nettó - Samkaup

Fréttir

Veðurguðir trufla Íslandsmótið - klárast mótið í þriðja hring?
Veðrið hefur verið mjög gott fyrstu tvo keppnisdagana í Eyjum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 6. ágúst 2022 kl. 09:00

Veðurguðir trufla Íslandsmótið - klárast mótið í þriðja hring?

Svo gæti farið að þriðji hringurinn á Íslandsmótinu í Eyjum verði lokahringur mótsins. Veðurspá fyrir lokadaginn, sunnudag er mjög slæm þar sem von er á mikilli rigningu og miklum vindi og ekki víst að það verði leikhæft á golfvellinum í Herjólfsdal.

Í tölvupósti til keppenda kemur fram að svo gæti farið að aflýsa þurfi fjórða keppnisdegi en sú ákvörðun mun liggja fyrir í síðasta lagi á hádegi á sunnudag.

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

„Eins og flestir vita er veðurspáin fyrir sunnudag slæm. Mótsstjórn hefur fylgst með spánni og mun gera það áfram. Stefnt er að því að fjórða umferðin verði leikin á sunnudag. Verði ekki hægt að leika á sunnudag verður fjórðu umferðinni aflýst, leik verður ekki frestað fram á mánudag. Mótsstjórn þykir eðlilegt að keppendum sé þetta ljóst fyrir þriðju umferð á morgun. 

Gert er ráð fyrir að rástímar fyrir fjórðu umferð verði gefnir út að leik loknum á morgun. Þurfi að aflýsa fjórðu umferð mun sú ákvörðun liggja fyrir í síðasta lagi á hádegi á sunnudag. Þriðja umferð verður því leikin samkvæmt áður auglýstri áætlun. Ræst verður frá kl. 08:00 og síðasti ráshópur ræstur kl. 13:10. Sjónvarpsútsending verður frá 15:00 til 17:50 og er afar mikilvægt að leikhraðaáætlun standist,“ segir í tilkynningu til keppenda.

Heimamenn sem kylfingur.is ræddi við segja að skap veðurguðanna lagist oft eins og gerðist á Þjóðhátíð um síðustu helgi. Þá raungerðist spáin ekki, veður var miklu betra en spár gerðu ráð fyrir. Veður er breytilegt á Íslandi.