Fréttir

Vil frekar að fólk tali um hversu gott golf ég spila heldur en aldurinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 28. maí 2020 kl. 10:46

Vil frekar að fólk tali um hversu gott golf ég spila heldur en aldurinn

Kylfingurinn Guðmundur Rúnar Hallgrímsson varð í þriðja sæti á fyrsta stigamóti ársins í golfi á Akranesi

„Þetta gekk alveg svakalega vel og fór langt fram úr mínum væntingum,“ segir Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, kylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja, en hann endaði jafn í þriðja sæti á fyrsta stigamóti Golfsambands Íslands á Garðavelli um síðustu helgi.

Guðmundur Rúnar hefur ekki verið duglegur að keppa á stigamótunum undanfarin ár en þó alltaf tekið þátt í Íslandsmóti í höggleik. Hann var þó með í fleiri mótum í fyrra og stefnir á að keppa á öllum mótunum í sumar. Guðmundur er tífaldur klúbbmeistari GS en hann á líka einn flottan titil sem er Stigameistari GSÍ en því náði hann árið 2001.

„Ég er búinn að vera að æfa á fullu í allan vetur. Eins fór ég í  góða æfingaferð með GS á Hellishóla í byrjun maí sem var snilld,“ segir Guðmundur Rúnar sem er 45 ára á árinu og hann var aldursforsetinn á mótinu í Skipaskaga en þar eru flestir keppendur á milli 20 og 30 ára.

Leiknar voru þrír hringir eða 54 holur á þremur dögum og voru aðstæður góðar fyrstu tvo dagana en hins vegar mun verri á lokadeginum, sérstaklega á fyrri helmingi hringsins, þegar rigndi duglega og eins var mikill vindur. Suðurnesjamaðurinn lét það ekki á sig fá enda alinn upp í Leirunni þar sem vindurinn er oft á hraðferð.

Guðmundur segist kunna vel við Garðavöll. „Mér gekk bara mjög vel að eiga við hann. Þau fáu slæmu högg sem ég sló missti ég á rétta staði þannig að ég var aldrei í vandræðum. Garðavöllur virðist henta mér vel og ég spila oftast vel þar.“

Er ekkert skrýtið að vera helmingi eldri en flestir þátttakendur?

Ja, stundum! Oftast er ég nær foreldrum þeirra í aldri. Eins er líka pínu spes að vera þrír saman í ráshópi og tveir yngstu ná mér ekki samanlagt í aldri,“ segir Guðmundur og hlær en vill ekki gera mikið úr aldrinum.

„Mér finnst þetta svona ótrúlega  gaman og spái lítið í þetta. Vil frekar að fólk tali um hversu gott golf ég spila heldur en aldurinn,“ segir Guðmundur Rúnar sem er spenntur fyrir næsta stigamóti sem verður á hans heimavelli í Leirunni.