Golfbúðin #Hamar
Golfbúðin #Hamar

Fréttir

Vor golfferð um suðurströnd Íslands
Fimmtudagur 21. maí 2020 kl. 12:17

Vor golfferð um suðurströnd Íslands

10 dagar - 7 golfvellir – níu 18 holu hringir. Forgjöf ferðalanga; hann 6,6, hún 22,3.

Í upphafi árs tókum við hjónin ákvörðun um að golfferðin í vor yrði ekki erlendis heldur á Íslandi. Uppleggið var strandvallaferð því þeir vellir ættu að vera opnir í byrjun maí. Í stormum sem gengu yfir Norðurland í vetur var gaman að plana þessa ferð. Brottför var ákveðin 6. maí og ákvörðun strax tekin um að sama hvernig viðraði myndum við halda okkur við plön, þ.e. slæm langtímaspá fyrir vikuna 6.-16. maí myndi ekki stoppa okkur. En svo skall Covid-19 á heiminn og við sáum fram á að ferðin yrði ekki farin, gistingar voru afbókaðar en við ákváðum þó að halda inni bústað við Hveragerði sem við áttum bókaðan í viku….svona til öryggis ef ástandið myndi lagast.  Þegar ljóst var að samkomubanni yrði aflétt 4. maí og hlutir fóru að skýrast þá drógum við ferðaplanið fram, skelltum heitu vatni á brúsa, pökkuðum Nescafé og smurðu brauði niður. 6. maí lögðum við af stað frá Akureyri í björtu og fallegu veðri.  

Fyrsti hringurinn á Hornafirði

Síðastliðið haust fórum við í golftúr um Austfirðina og því var stefnan tekin beint á Höfn í Hornafirði.  Akstur frá Akureyri til Hafnar er ágætis dagleið, ca. 6 klst. akstur um hina íðilfögru firði. Í ljósi aðstæðna var lítið mál að finna góða gististaði og verðin ótrúlega góð.

Eins og áður sagði var fyrsta næturstopp á Höfn. Fyrsti golfhringur var að morgni fimmtudagsins 7. maí, við spiluðum 9 holur á Silfurnesvelli við Hornafjörð í einstakri blíðu; logn, blár himinn og 12 stiga hiti. Völlurinn kom okkur skemmtilega á óvart, virkilega vel hirtur og allt til fyrirmyndar. Umhverfi vallarins er erfitt að toppa, jökullinn í öllu sínu veldi og mikið fuglalíf. Frábær fyrsti hringur ársins.  

Á Vík er ein lengsta golfbraut landsins, 600 metrar á gulum, 500 m á rauðum.

600 metra löng braut

Næsti völlur samkvæmt plani, ef við værum í stuði þennan sama dag, var völlurinn á Vík í Mýrdal. Akstursleiðin frá Höfn að Vík eru 270 km. Þetta keyrðum við í rólegheitum í fallegu veðri, stoppuðum við Jökulsárlón, enn með heitt vatn á brúsa, Nescafé og smurt. Við lónið vorum við og tveir aðrir Íslendingar. Eftir gott stopp við Jökulsárlón var næsta stopp tekið á Kirkjubæjarklaustri. Þaðan lá leiðin svo til Víkur, við enn í stuði og ákváðum að spila 9 holur. Og ekki versnaði umhverfið! Völlurinn er vel hirtur, girtur af með hamrabelti með útsýni til Hjörleifshöfða í austur og Reynisdrangar í vestri. Heiðskýr himinn en nokkuð hvöss vestanátt sem kom sér reyndar vel á par 6 braut vallarins; 600 metrar á gulum/500 m á rauðum!!  Eftir golfið í Vík var auðvitað nauðsynlegt að stoppa í túristalausri Reynisfjöru.  Náttstaður var undir Eyjafjöllum með útsýni til Vestmannaeyja.

Það er mögnuð upplifun að spila í Eyjum.

Magnað í Eyjum

Á föstudagsmorgni beið okkar 15 mín akstur á næsta áfangastað sem var Landeyjarhöfn því næsti völlur í dagskránni var í Vestmannaeyjum.  Við vorum komin til Eyja fyrir hádegi, náðum að fara út að borða og áttum rástíma kl. 13.  Um völlinn í Eyjum þarf ekki að fara mörgum orðum; hann er einfaldlega frábær og umhverfið engu líkt!  Við spiluðum völlinn aftur á laugardagsmorgni.  Báðir dagarnir voru bjartir og góðir og virkilega ánægjulegt að komast loksins í golf í Eyjum.  Með tilkomu Landeyjarhafnar og nýja Herjólfs eru samgöngur við Vestmannaeyjar orðnar góðar og gefur okkur á stóru eyjunni möguleika á að fara jafnvel í dagsferðir til að spila skemmtilegan golfhring. Við sigldum með Herjólfi kl. 17 laugardaginn 9. maí og vorum komin í bústað við Hveragerði upp úr kvöldmatarleyti.  Dvalarstaður í tæpa viku í Hveragerði var ákveðinn í ljósi þess að þaðan er auðvelt að gera út, hvort sem spila á í nágrenni Hveragerðis eða í Reykjavík.

Flatir voru góðar og hraðar á Selfossi.

Alltaf gaman á Hellu.

Hveragerði er skemmtilegur golfvöllur í fallegu umhverfi.

Sunnudagur 10. maí.  Næsti völlur Strandarvöllur, Hellu.  Og fyrsti dagur ferðarinnar í rigningu, fínt að kanna hvort að regnfötin virki ekki enn.  Góður dagur á Hellu, skemmtilegur völlur, þægilegt að ganga. Og eins og svo oft áður fallegt umhverfi. En mikið var gott að komast í heitan pott eftir þennan blauta golfhring.

Mánudagur 11. maí.  Golfvöllurinn á Selfossi, Svarfhólsvöllur.  Þessi völlur kom sannarlega á óvart.  Vel við haldið, skemmtlegar brautir og flatirnar þær hröðustu í ferðinni.  Greinilega mikill metnaður hjá GOS og verður gaman að sjá völlinn eftir þær breytingar sem eru í gangi hjá þeim.

Þriðjudagur 12. maí. Völlur dagsins skv. plani frá upphafi árs var Þorlákshöfn, rástími í hádegi.  Ágætis veður í Hveragerði, bjart og sæmilega hlýtt.  Við komuna til Þorlákshafnar var aftur á móti 5 stiga hiti, þéttur suddi og vindur. Skyndifundur í skála, breytt plan og brunað á Selfoss þar sem hitinn var meiri og miðað við góða skemmtun á mánudagshringnum þá var engu að kvíða að taka annan 18 holu hring þar.  Höfðum hlakkað til að spila í Þorlákshöfn en það bíður betri tíma, komumst vonandi á hann seinna í sumar.

Miðvikudagur 13. maí.  Skv. margnefndu plani var völlur dagsins Gufudalsvöllur í Hveragerði.  Og planið stóðst.  Bjart með köflum en talsverður vindur.  Skemmtilegar 18 holur spilaðar í Hveragerði, umhverfið eins og svo oft áður dásamlegt og mikið fuglalíf.  Völlurinn er virkilega skemmtilegur, erfiður á fót og öll aðstaða til fyrirmyndar.

Fimmtudagurinn 14. maí var frídagur í fríi. Dagurinn var nýttur til kíkja í golfverslanir á höfuðborgarsvæðinu og að undirbúa brottför frá Hveragerði til Keflavíkur. Ókum svo Suðurstrandarleiðina (Krýsuvík) á föstudagsmorgni í heiðskíru veðri og vorum mætt á teig á Hólmsvelli í Leiru kl. 14:30.  Golfvöllurinn í Leiru frábær eins og alltaf. Brautir og flatir góðar og umhverfið fagurt á svona björtum dögum. Laugardaginn 16. maí var svo komið að lokahringnum í þessari 10 daga golfferð um suðurströnd landsins. Í ferðinni héldum við því opnu að spila síðasta hring í Mosfellsbæ eða á Akranesi. Við ákváðum þó þarna að taka hann í Leirunni enda ekki slæmt að spila völlinn tvo daga í röð og óþarfi að leita langt yfir skammt þegar veðrið er gott og völlurinn frábær. Og þar með lauk velheppnaðri ferð sem var skipulögð yfir kaffibolla í stórhríð á Akureyri í janúar. Við heimkomu var búið að opna golfvöllinn á Akureyri og má búast við frábæru golfsumri hjá GA.

Hólmsvöllur var að venju flottur, góðar brautir og flatir.

Góð æfing í Golfboxinu

Ferðin var góð æfing í notkun á Golfboxinu.  Við komumst að því að best er að vita númer meðspilarans og það var lítið mál að bóka rástíma í gegnum appið.  Við skráðum skor í gegnum tölvu og við erum ekki frá því að það sé þægilegra en í gamla kerfinu. Breytingu á rástímum var líka þægilegt að framkvæma, bæði í tölvu sem og í appi.

Golfarar, ferðumst um golfvelli landsins í sumar. Góð tilboð eru á gististöðum, frábærir vellir í öllum landshlutum (munið vinavellina) og stórgóðir veitingastaðir á hinum ólíklegustu stöðum. Veðrið er yfirleitt betra en það lítur út fyrir að vera (fyrir utan 5 gráður, vind og þéttan sudda) og öll erum við búin að fjárfesta í dýrum fatnaði sem á að þola hin ýmsu veður.  Nýtum sumarið vel, setjum heitt vatn á brúsa og brunum af stað. 

Gleðilegt golfsumar 😊

Guðrún Karítas Garðarsdóttir

Böðvar Kristjánsson

Guðrún og Böðvar sátt að lokinni golfferð á Íslandi.