Kylfingur dagsins

Kylfingur dagsins: Hefur týnt tveimur giftingahringum á golfvöllum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 26. apríl 2020 kl. 17:16

Kylfingur dagsins: Hefur týnt tveimur giftingahringum á golfvöllum

Stefán Hilmarsson, tónlistarmaður er áhugasamur kylfingur. Hann hefur ekki farið holu í höggi en honum hefur tekist nokkuð sem sennilega enginn hefur leikið eftir en það er að týna tveimur giftingahringum á golfvellinum. Hann segir okkur frá því hér í spjallinu. Alveg magnað.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?

Ég byrjaði 2001, fyrir tilstuðlan Eyjólfs vinar míns Kristjánssonar. Við erum báðir miklir íþróttaáhugamenn, höfðum m.a. fylgst af áhuga með golfi í sjónvarpi árum saman og reglulega talað um að byrja í golfi. Eyfi varð fertugur þetta vorið og pantaði golfsett í afmælisgjöf, ég keypti í kjölfarið notað sett, þannig að hann hefði spilafélaga, við hófumst handa og höfum spilað reglulega upp frá því.

Helstu afrek í golfinu?

Þau eru fjölmörg í mínum huga, en þó fæst í almennar frásögur færandi. Ég hef þó unnið fáein golfmót og fengið nokkra eftirminnilega erni. Þeir eru reyndar ekki fleiri en svo, að ég man eftir hverjum einasta, öllum níu.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?

Það gerist nú svo margt neyðarlegt, að ef maður fengi 100-kall fyrir öll höggin sem geiga illa, þá væri maður ríkur. Eins hef ég ósjaldan gleymt eða týnt kylfum hér og þar. Þá hefur mér tvisvar tekist að týna giftingarhring á vellinum. Eftir að ég týndi í fyrra skiptið og hafði gefið þann hring upp á bátinn, lét ég gera nýjan. Mér tókst svo einnig að týna honum! En fáum dögum áður hafði fyrri hringurinn fundist óvænt, rúmlega ári síðar. Það verkaðist þannig, að eiginkonan var að bóka rástíma fyrir mót á Akranesi, en þegar hún sagði til nafns var hún spurð hvort hún kannaðist við giftingarhring með þessu nafni! Hún hélt það nú, því hringurinn hafði einmitt týnst á Garðavelli. Nýrri hringurinn endurheimtist síðan skömmu síðar og var það eiginkonan sem fann hann! Ég taldi mig vita nokkurn veginn á hvaða slóðum hann hafði týnst, en hún var að spila þar nokkru síðar með vinkonum og sá glampa á hringinn í karga fyrir utan flötina. Þá var búið að slá þarna alloft í millitíðinni, þannig að hringurinn hefur sloppið undan gini sláttuvéla og hrafna. Það verður að fylgja sögunni, að ástæðan fyrir þessu er sú að ég get ekki spilað með hring og tek hann því ávallt af mér. En stundum hefur það gerst í óðagoti og ég ekki haft eða gefið mér tíma til að koma hringnum tryggilega fyrir í golfpokanum, kannski skellt honum í buxnavasann og hann síðan runnið úr við einhverjar kringumstæður. En nú á ég tvo hringa og get því andað rólega.

Hefurðu farið holu í höggi og þá hvar?

Ekki hefur það hent mig ennþá. En maður lifir í voninni. Ég hef hins vegar nokkrum sinnum orðið vitni að slíkum afrekum.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Ég hef leikið með Birgi Leifi, sigursælasta kylfingi íslenskrar golfsögu. Það verður nú varla betra.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?

Nei, ég hef aldrei verið hjátrúarfullur að neinu leyti. En ég er vanafastur að ýmsu leyti. T.d. verða kylfurnar alltaf að vera á sínum stað í pokanum, ég verð ómögulegur ef það riðlast eitthvað.

Hvað er það sem þú þarf mest að bæta í þínum golfleik?

Ég hef alltaf verið með „inn-út“ sveiflu, mismikið þó, sem gerir það að verkum að ég er höggstuttur að jafnaði. Ég hef hins vegar ekki haft nægilegan metnað til að gera gagngera breytingu á sveiflunni. Ég finn þó að mig er farið að langa til að laga þetta og ná vonandi að lengja mig aðeins. Það er stefnan að gera heiðarlega tilraun til þess fyrir sumarið, jafnvel þótt mig ói fyrir því, þar sem ég er ekki mikill æfingamaður, vil helst bara spila.

Hvernig er lífið og golfið núna á tímum Covid19?

Ég er einn þeirra sem nældi mér í þessa veiru, konan mín telur mig hafa verið nr. 69 af þeim sem greindust, hvað sem til er í því. En sem betur fer veiktist ég ekki illa og er kominn á ról. Sem fyrr sagði, þá er stefnan að vinna aðeins í sveiflunni fyrir sumarið, vonandi verður það mögulegt innan tíðar, þegar um fer að hægjast hjá veirunni.

Stefán með Eyjólfi Kristjánssyni, vinum sínum á golfvellinum.

Stefán Hilmarsson

Aldur: 53.

Klúbbur: GR.

Forgjöf: 14,9.

Uppáhalds matur: Lambahryggur.

Uppáhalds drykkur: Blávatn og rauðvín.

Uppáhalds kylfingur: Guðmundur Ágúst og Fred Couples, nýi og gamli skólinn.

Þrír uppáhaldsgolfvellir? Vestmanneyjavöllur, Las Colinas (Spánn), Kingsbarns (Skotland).

Þrjár uppáhalds golfbrautir á Íslandi: Úff, erfitt. En segjum t.d. 8. holan í Eyjum, 7. á Urriðavelli, 14. á Korpu (áin).

Erfiðasta golfholan: 15. holan í Grafarholtinu hefur farið illa með mig ansi oft.

Erfiðasta höggið: Teighögg á 12. holu á Korpu.

Ég hlusta á: Þögnina.

Besta skor: 78, bæði í Grafarholti og á Hvaleyri.

Besti kylfingurinn: Akkúrat núna er Rory á toppi heimslistans, ekki lýgur taflan.

Golfpokinn: Ecco.

Dræver: Titleist 917D 9,5∞.

Brautartré: Ping 3-tré (G20), 27∞ hybrid (G25) og 21∞ hybrid (Rapture).

Járn: Ping G25 (5-járn niður í SW).

Fleygjárn: Ping G25 52∞ og 54∞.

Pútter: Ghost DA12 Tour.

Hanski: Ecco, langbestu hanskarnir.

Skór: Ecco.

8. brautin í Eyjum er ein af uppáhaldsbrautum Stefáns. Hér er frægasti kylfingurin sem hann hefur spilað með, Birgir Leifur, með 8. flötina í baksýn.