Kylfukast

Kylfukast: Golfsambandið lagt niður?
Laugardagur 28. nóvember 2015 kl. 11:16

Kylfukast: Golfsambandið lagt niður?

Golfþingi GSÍ lauk fyrir réttri viku. Stærsta fréttin af þinginu hefur ekki verið birt en þar ákváðu þingfulltrúar að hefja undirbúning að því að leggja niður Golfsamband Íslands. Án þess að fatta það sjálfir.
 
Lúðvík Kolbeinsson (Lodewijk Klootwijk) frá Hollandi var fenginn til landsins til að lýsa framtíðarsýn golfvallaeigenda í Evrópu á golfíþróttina undir nafninu Vision 2020 á málþinginu „Framtíð golfíþróttarinnar“ sem haldið var á undan Golfþinginu. Golf hefur átt nokkuð undir högg að sækja í Evrópu síðustu árin. Lúðvík gekk svo langt að segja að hin hefðbundnu árgjöld væru úrelt (e. thing of the past). Golfvallaeigendur settu nú frekar peninga í að þjónusta viðskiptavininn (klúbbfélagann) betur heldur en að endurbæta vellina. Eins væri nú seldur aðgangur að golfvöllum á mun fjölbreyttari máta en bara með árgjaldi með ótakmörkuðum aðgangi eða vallargjaldi fyrir einn hring.
Forseti GSÍ gerði strax grein fyrir því á málþinginu að á Golfþinginu þyrftu þingfulltrúar að ræða þau mál sem raunverulega skiptu máli. 10.000 manns hefðu hætt í golfklúbbum á Íslandi frá árinu 2000, en þrátt fyrir það væru félagsmenn innan vébanda GSÍ um 16.000. Golfhreyfingin þyrfti að komast að því hvers vegna sumir golfiðkendur kysu að vera ekki í golfklúbbi. 
 
Þingfulltrúar tóku orð forsetans um að ræða helst þau mál sem skiptu raunverulegu máli alvarlega og notuðu megnið af tíma Golfþingsins til að ræða um fríkort GSÍ, umbun sem þingfulltrúar veita sjálfum sér fyrir svokölluð sjálfboðaliðastörf. Eftir miklar umræður varð niðurstaðan sú að í stað þess að veita sjálfum sér fríhringi skyldu korthafar framvegis greiða 1.500 kr. fyrir hvern leikinn hring. Í stað þess að kortið gildi einnig fyrir maka, gildir það nú fyrir vin. Er það tilkomið vegna reynslu starfsfólks golfklúbbanna af því að óvenju hátt hlutfall karlkylfinga með GSÍ kort hafi lýst yfir samkynhneigð þegar nota átti kortið og ítrekað reynt að sannfæra starfsmenn golfklúbba um að makkerinn væri í raun maki. Til að losa starfsmenn golfklúbbanna undan slíku þvargi, var maka skipt út fyrir vin. 
Fimmtán hundruð króna greiðslan var töluvert að flækjast fyrir þingfulltrúum og þótti hún gjaldfelling á annars góðu fríðindakorti. Óvist yrði hvort að eins vel gengi að fá sjálfboðaliða til starfa hjá hreyfingunni þegar ekki væri hægt að bjóða uppá fríkort í skiptum fyrir sjálfboðastarfið. Einn þingfulltrúi hafði á því orð að ekki væri víst að hann gæti eða hefði áhuga á að sinna sjálfboðastörfum þegar fríkortið væri úr myndinni. 
Einungis 7 fulltrúar greiddu atkvæði með tillögu undirritaðs um að hætta útgáfu kortsins með öllu. Það verður seint vinsælt að fella niður eigin fríðindi.
Um 1.100 GSÍ kort eru gefin út á hverju ári. GSÍ gefur út 250 kort til styrktaraðila, 40 fara til fjölmiðla, um 700 kort til klúbbanna og önnur 100 til landsliðs, afreksfólks og annarra „velunnara“ golfhreyfingarinnar. 
 
Næsta rekstrarár GSÍ mun reynast dýrt þar sem Evrópumót karla og kvenna fara fram á sama árinu. Að sögn Úlfars Jónssonar, landsliðsþjálfara, er þetta ekki algengt. Erfiðlega gekk að setja saman fjárhagsáætlun ársins miðað við þá tekjustofna sem GSÍ hefur. Reiknað var með að um 5 milljónir vantaði í afreksstarfið til að endar næðu saman. Til að bæta úr þessu lagði undirritaður fram tillögu um að GSÍ gjald sem lagt er á alla félagsmenn innan golfklúbbanna 16 ára og eldri yrði hækkað úr 4.800 í 5.500 krónur. Slík hækkun myndi gefa GSÍ 10 milljónir aukalega í tekjur árlega. Aðalfundir klúbbanna væru framundan og hægt væri að bæta þessum auka 700 krónum inn í félagsgjöld næta árs.
 
Tillagan var felld með 59 atkvæðum gegn 48.  
 
Atkvæðagreiðslan sýndi betur en allt annað að golfhreyfingin á Íslandi er á villigötum. Meðan þingfulltrúum finnst fullkomlega eðlilegt að nota Golfþing sem vettvang til að dreifa afsláttarkortum sín á milli eru þeir ekki tilbúnir að styðja við afreksstarf að því marki sem þarf svo hægt sé að halda úti sómasamlegu landsliði í golfi. Ef það er staðan þá er engin ástæða til að reka golfsamband. Því ef reka á golfsamband, þá verður að leggja því til nægilegt fjármagn svo gera megi það af myndarbrag.
 
Hverjum og einum er heimilt að túlka þessi skilaboð frá golfhreyfingunni á sinn hátt en í mínum augum vekur það upp spurninguna hvort ætlun golfklúbbanna á Íslandi sé að leggja Golfsamband Íslands niður.
 
Með golfkveðju,
 
Margeir Vilhjálmsson.