Kylfukast

Kylfukast: Slór við leik
Föstudagur 9. september 2016 kl. 14:19

Kylfukast: Slór við leik

Ég var rétt byrjaður að starfa hjá Golfklúbbi Reykjavíkur um síðustu aldamót þegar Þorsteinn Sv. Stefánsson alþjóðadómari skrifaði grein í Kylfing, tímarit GR, með þessari frábæru fyrirsögn „Slór við leik“ er snilldarþýðing því sem á ensku kallast „slow play“.

Í rúmlega 20 ár hefur hægur leikur pirrað kylfinga hér á landi sem annars staðar og aldrei finnst lausn. Uppúr aldamótum var tekið upp nýtt forgjafarkerfi. Forgjafarkerfið sem er notað enn þann dag í dag Byggir á því að forgjöf kylfinga er fundin út með Stableford punktum. Þannig ef kylfingur lendir í því óláni að „drulla uppá bak“ á einhverri holu getur hann tekið upp boltann og hætt leik. Skráð bara X og fengið engan punkt á holuna. Væntingar manna til þessa kerfis fyrir um 16 árum síðan voru miklar og þá ekki síst að það kveikti vonir um mun hraðari leik en áður hafði tíðkast. Það getur nefnilega tekið svolítinn tíma að leika holu á 12 eða 15 höggum.
 
Í dag er ég þeirrar skoðunar að þetta forgjafarkerfi sé ein mesta meinsemd sem til er í íslensku golfi. Um síðustu áramót voru gerðar breytingar á EGA forgjafarkerfinu þannig að hámarksforgjöf í stað þess að vera 36 eða 40 er nú orðin 54. FIMMTÍU OG FJÓRIR. 
 
Það þýðir í stuttu máli að metnaðarfullur kylfingur sem er að byrja í golfi getur leikið hverja holu á apótekara* og samt fengið punkt. Í stuttu máli heitir það að leika 18 holu völl á 144 höggum til að fá 18 punkta. Þar sem viðkomandi er byrjandi mætti alveg eins segja að hann léki á nærri 160 höggum og x aði þá út kannski nokkrar holur. Þetta er sett fram á sama tíma og flestir eru sammála um að golf eigi undir högg að sækja vegna þess að leikurinn taki of langan tíma. Forgjafarnefnd EGA hlýtur að hafa verið að reykja eitthvað eðalefni úr röffinu á Gamla vellinum.
 
En hvað er til ráða? Fjölmargar hugmyndir hafa komið fram í gegnum tíðina. Ready golf. Sá sem er tilbúinn slær fyrstur af teig. Bannað að merkja á flötum. Sá sem byrjar að pútta á að klára. Svo mætti lengi telja. Engin virðist virka.
 
Lausnin á þessu er kannski mun einfaldari. Það á að stytta golfvellina. Þeir eru alltof langir fyrir flesta sem þar leika. Eða kannski frekar þannig sagt, kylfingar eru að leika á teigum sem eru of aftarlega fyrir þá.
 
Ef þú ert að leika golfvöll þar sem þú þarft 5 járn eða meira á öllum par 3 holum vallarins, þarft 3 högg til að komast inn par 4 holur og þarft oftar en ekki 5 járn eða meira til að ná inná flöt, þá er völlurinn sem þú ert að leika of langur fyrir þig. Farðu á fremri teiga.
 
Vandinn við þetta er sá að EGA forgjafarkerfið refsar kylfingum óhóflega fyrir að fara á fremri teiga. Það lengi verið vitað að góð skor eru byggð upp kringum flatirnar, ekki eftir því hversu langt kylfingar geta lamið boltann. EGA forgjafarkerfið snýr þessu alveg á hvolf.
Það dregur af þeim sem kjósa að fara á fremri teiga alltof mörg forgjafarhögg og ýtir þannig undir hægan leik. 
 
Hvet alla karlmenn að brjóta odd af karlmennsku sinni á haustdögum og prófa að leika sinn heimavöll á rauðum teigum. Notast við vallarforgjöfina sem þeir fá gefna á þeim gulu. 
 
Niðurstaðan af þessari tilraun ætti að verða sú að leikur gengur mun hraðar. Hjá flestum verða punktarnir á bilinu 33-38. Ef einhver vinnur stórafrek við þessa breytingu og fer yfir 40 punktana, þá er það sá leikmaður sem helst á að leika á fremri teigum, því hann er mun betri en forgjöfin segir til um. Högglengdin er bara ekki næg til að eltast við aftari teiga.
 
Gangi ykkur vel og góða skemmtun.
 
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson
  • apótekari er vel þekktur frasi úr Leirunni. Þýðir að leika holu á 4 yfir pari.