Kylfukast

Kylfukast: Það sem raunverulega skiptir máli
Mánudagur 25. janúar 2016 kl. 09:45

Kylfukast: Það sem raunverulega skiptir máli

Rekstur sundlauga er ekki hluti af lögbundinni þjónustu sveitarfélaga, að undanskilinni sundkennslu. Staðreyndin er engu að síður sú að á Íslandi hafa sveitarfélögin annast rekstur sundlauga og því eru þær að stærstum hluta reknar fyrir skattfé.

Í Reykjavíkurborg rekur Íþrótta- og tómstundaráð 6 sundlaugar. Þær draga til sín 1,8 milljón gesta á ári og hala inn í tekjur um 700 milljónum, eða um 400 kr. að meðaltali fyrir heimsóknina. Rekstrarkostnaður umfram tekjur er ríflega milljarður. Nýtingarstundir í sundlaugunum ef við gefum okkur að hver gestur sé þar í 1 klst eru 1,8 milljónir. Deilum þessum nýtingarstundum jafnt niður á 12 mánuði og fáum út 150.000 nýtingarstundir á mánuði. Deilt á 6 sundlaugar sem gefur okkur 25.000 nýtingarstundir á mánuði. Ef við deilum svo einum milljarði niður á 12 mánuði og 6 sundlaugar þá kostar hver sundlaug u.b.b. 13,8 milljónir á mánuði.

Í Reykjavik eru rekin tvö golfsvæði í Grafarholti og á Korpúlfsstöðum. Golfvellirnir eru opnir að meðaltali í 5 mánuði á ári, frá byrjun maí, til loka september.  Þessir golfvellir fá 70.000 heimsóknir á ári. Gefum okkur að hver heimsókn sé að meðaltali 3,5 klst. Það gera 245.000 nýtingarstundir á ári, eða 24.500 nýtingarstundir á hvoru svæði á mánuði. Rekstrarstyrkir til GR frá Reykjavíkurborg nema 25 milljónum á ári eða sem nemur tveimur sundlaugamánuðum. Allt þetta má heimfæra á önnur sveitarfélög.

Í draumaheimi mínum er golfi gert jafn hátt undir höfði og sundi. Af því golf er besta íþrótt í heimi. Rekstrarstyrkir til golfvallanna væru í fullkomnu samræmi við rekstrarstyrki til sundlauganna. GR fengi því frá Reykjavíkurborg 130 milljónir á ári til að reka tvö golfvallasvæði í Grafarholti og á Korpu. Hægt væri að lækka félagsgjald fullgreiðandi félagsmanna úr 95.000 krónum í 55.000 krónur, eða bara hafa frítt fyrir börn og þá sem væru 65 ára og eldri. Rekstrarumhverfið myndi allavega umturnast.

Ég hef áður ritað greinar um það að GSÍ sé algerlega sofandi þegar það kemur að því að fylgjast með rekstrarumhverfi golfklúbbanna á Íslandi. Það eitt að horfa bara á fjöldatölur iðkenda er ekki nógu góður mælikvarði fyrir heildarmynd af heilbrigði hreyfingarinnar.
Golfklúbbarnir gefa flestir út ljómandi góðar ársskýrslur þar sem ítarlega er farið yfir rekstur ársins. Lestur þessara ársskýrslna er mjög fróðlegur og ættu þær að vera skyldulesefni fyrir þá sem vinna í golfhreyfingurinni, sérstaklega stjórnarmenn í GSÍ.

Hér er gripið niður í tveimur þeirra, hjá GA og GKG
Úr ársskýrslu GA 2015:
Fjöldi GA félaga er nú 714 á móti 679 í fyrra. Þrátt fyrir þessa tölu er í raun fækkun fullborgandi meðlima í GA. Börn í golfskólanum í sumar voru öll munstruð í GA og lyftir það tölunni. Það er hinsvegar nokkur lækkun á árgjaldatekjum milli ára.

Úr ársskýrslu GKG 2015:
Mikil fjölgun hefur orðið í hópum yngstu kylfinganna þ.e. 13 ára og yngri, en fjölgunin þar er rúm 250%
Rétt er að geta þess hér að nú eru þeir sem voru á námskeiðum hjá okkur skráðir í GKG, en svo var ekki áður. Á þessu ári eru 1873 kylfingar 15 ára og yngri skráðir í golfklúbba á landinu og um þriðjungur þeirra eða 593 skráðir í GKG.

Hér að neðan má sjá samanburð á ársreikningum 6 af stærstu golfklúbbum landsins. Þrátt fyrir að klúbbarnir hafi allir hækkað árgjöld sín um 4% milli áranna 2014 og 2015, drógust félagsgjaldatekjur saman hjá öllum nema GO.

Margt áhugavert kemur í ljós við lestur ársreikninganna. Nánast til allar félagsgjaldatekjur klúbbanna fara í launagreiðslur til starfsmanna. Launahækkun skv. SALEK samkomulaginu mun reynast golfklúbbunum þungt í vöfum, þar sem 6% launahækkun frá og með áramótum er meiri en árgjaldahækkun golfklúbbanna. Allt stefnir því í erfiðara rekstrarumhverfi fyrir golfkúbbana á árinu 2016.

Því miður fór síðasta Golfþing eins og flest önnur þar á undan fyrir ofan garð og neðan. Megninu af tíma þingsins var eytt í karp um fríkort. Eins og kom fram í grein Edwins Rögnvaldssonar sem birt var hér á Kylfingi í síðustu viku hefur golf gríðarlega góð áhrif á heilsu iðkenda. Ekki hafa verið gerðar greiningar á því að meta þá heilsubót til fjár en síst verður hún talin minni en hjá sundiðkendum.
Þetta Kylfukast er áskorun á Golfsamband Íslands að gera bragarbót í þessum málum. Boða golfklúbbana til fundar og setja fram stefnu sem gagnast getur golfklúbbunum að sækja ríflegri rekstrarstyrki en þeim hafa hingað til boðist. Að bæta rekstrarumhverfið þannig að golfklúbbar geti blómstrað. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í stuðningi við verkefnið. Menn geta tautað og raulað um, svartnætti, neikvæðni, tapsæri og persónulega óvild, en þetta er það sem raunverulega skiptir máli.
Gerist ekkert, mun ég sjálfur bjóða þeim golfklúbbum sem áhuga hafa á verkefninu til fundar í byrjun mars.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson
(höfundur er stjórnarmaður í Golfklúbbi Reykjavíkur. Skrif og skoðanir sem settar eru fram í Kylfukasti eru á eigin ábyrgð og hafa ekkert með Golfklúbb Reykjavíkur að gera).