11 metra pútt fyrir fugli innsiglaði sigur Sam Burns í bráðabana
Var sjö höggum á eftir Scottie Scheffler fyrir lokahringinn
Bandaríkjamaðurinn, Sam Burns, setti niður 11 metra pútt af flatarkanti fyrir fugli og tryggði sér sigur á Charles Schwab Challenge á PGA mótaröðinni á fyrstu holu bráðabana.
Burns kom til baka á lokahringnum, lék á 65 höggum eða á 5 höggum undir pari Colonial vallarins í Texas og tryggði bráðabana við landa sinn, Scottie Scheffler. Báðir lentu þeir innáhöggi sínu á Par 4, 18. holu um 11 metra frá holu, Burns á flatarkantinum en Scheffler á flötinni. Burns gerði sér lítið fyrir og setti púttið í en Scheffler brást bogalistin og missti rétt hægra megin við holu.
Scheffler var með tveggja högga forskot á þá Brendon Todd og Scott Stallings fyrir lokahringinn. Sam Burns var aftur sjö höggum á eftir Scheffler fyrir hringinn en vindasamt var á lokahringnum og meðalskorið rúmlega tvö högg yfir pari vallarins.
Þetta var þriðji sigur Burns á þessu keppnistímabili PGA mótaraðarinnar en hann sigraði einnig á Sanderson Farms Championship síðasta haust og á Valspar Championship í mars á þessu ári. Burns lyfti sér með sigrinum upp um eitt sæti á stigalistanum til FedEx-bikarsins, upp fyrir Ástralann, Cameron Smith og í annað sætið. Þá hafði Burns sætaskipti við landa sinn, Jordan Spieth á heimslistanum og situr í 9. sætinu eftir helgina. Scottie Scheffler leiðir enn báða listana.