Elva fór holu í höggi í Víetnam
Elva Hrund Ágústsdóttir úr Golfklúbbi Suðurnesja fór alla leið til Víetnam til að fara holu í höggi. Hún náði draumahögginu á áttundu holu á FLC Halong Bay golfvellinum en það er einn fallegasti völlurinn í landinu.
Elva Hrund er í Golfklúbbi Suðurnesja og var við leik ásamt manni sínum, Jóni Júlíusi Árnasyni. Brautin er 135 metrar og Elva Hrund hitti flott högg með 3-tré sem endaði í holu en þetta var í fyrsta sinn sem hún nær draumahögginu.
Í FLC klúbbhúsinu er glæsilegur veggur með nöfnum þeirra sem hafa farið holu í höggi á vellinum. Þá fékk Elva Hrund líka viðurkenningarskjal.
„Þetta var mikil upplifun að ná draumahögginu þarna. Vellirnir sem við Jón lékum voru mjög skemmtilegir og ferðin ógleymanleg,“ sagði Elva Hrund.
Eins og sjá má á myndunum fylgir aðstoðarfólk kylfingum í golfi í Víetnam.
Við hvetjum kylfinga til að senda okkur myndir og stuttan texta ef þeir fara holu í höggi. Netföng má finna neðst á forsíðu kylfingur.is