Fréttir

Áfram snertilaust golf hjá GR
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 2. júlí 2020 kl. 10:20

Áfram snertilaust golf hjá GR

Fram kemur á heimasíðu Golfklúbbs Reykjavíkur að haldið verði áfram að leika snertilaust golf á völlum GR um ókomna tíð. Það þýðir að bannað verði að koma við stöngina og engar hrífur verði í glompum.

Stjórn klúbbsins hefur komist að þessari niðurstöðu en fram kemur að klúbburinn hefði ekki tök á að sótthreinsa alla snertifleti þrisvar á dag hið minnsta.

„Eins og félagar okkar þekkja hefur verið snertilaust golf hjá okkur frá opnum valla í vor. Það þýðir að bannað er að koma við stöngina og engar hrífur eru í glompum. Stjórn klúbbsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að áfram skal leika snertilaust golfi á völlum GR. Eins og allir vita hefur farið að bera á nýjum tilfellum í faraldrinum og til þess að leika megi golf án takmarkana samkvæmt reglum sóttvarnarlæknis þarf klúbburinn að sótthreinsa alla snertifleti, allar stangir og allar hrífur, þrisvar á dag hið minnsta.

GR getur ekki ábyrgst að snertifletir séu sótthreinsaðir og því mælir stjórn klúbbsins með því að áfram verði leikið snertilaust golf. Í því felst að bannað er að snerta stöngina og áfram verða engar hrífur í glompum, enda er það mat stjórnar að reglurnar séu mikilvægar og lítt íþyngjandi. Það er von okkar að félagsmenn sýni þessari ákvörðun áfram góðan skilning, hún er tekin með hag okkar allra í huga.“

Ein undantekning verður á reglunni en kylfingar fá leyfi til að halda við flaggstöng með kylfu þegar aðrir leikmenn pútta, til að mynda í miklum vind þegar flaggstöngin hallar að leikmanni og „minnkar“ holuna.

„Leikmenn mega miðjusetja flaggstöngina í holunni á öruggan hátt, sem felur ekki í sér að nota höndina, jafnvel ekki þótt þeir noti hanska eða handklæði (til dæmis með því að nota kylfu). Miðjusetning flaggstangarinnar væri heimil á meðan annar leikmaður leikur (þetta getur verið æskilegt við vindasamar aðstæður þegar skilyrt er að flaggstöngin sé í holunni og hún hallar að leikmanninum sem á að leika).“