Áhorfendastúkur á Grafarholtsvelli
Undirbúningur er nú í fullum gangi á Grafarholtsvelli þar sem Íslandsmótið í höggleik hefst á morgun. Í gær var verið að koma upp áhorfendastúku við 18. flötina, en það er í fyrsta sinn sem það hefur verið gert í kringum Íslandsmót í golfi. GR-ingar ætla sér að vanda vel til verka og gera allt til að umgjörð mótsins verði sem glæsilegust, bæði fyrir keppendur og áhorfendur. Þá hefur verið sett upp stórt tjald á bílastæðinu fyrir framan golfskálann. Eins verður komið fyrir tölvuskjám í golfskálanum þar sem hægt verður að fylgjast grannt með skori keppenda.
Grafarholtsvöllur skartar nú sínu fegursta og er það samdóma álit keppenda sem hafa verið að leika æfingahring síðustu daga. Sýnt verður frá mótinu í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu laugardag og sunnudag frá klukkan 15 báða dagana. Áhorfendastúku verður einnig komið fyrir við 17. flötina.
Mynd/grgolf.is: Það er glæsileg umgjörð í kringum Íslandsmótið í höggleik.