Áhorfendastúkur rísa á Leirdalsvelli fyrir Íslandsmótið
Íslandsmótið í höggleik á Eimskipsmótaröðinni hefst á fimmtudaginn á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Þar á bæ eru starfsmenn í óða önn að leggja síðustu höndina á þau verk sem þarf að klára áður en mótið hefst. Tvær áhorfendastúkur verða á vellinum fyrir gesti og verða þær við 18. flöt og 13. braut.
Vallarstarfsmenn GKG leggja nú nótt við dag við að koma vellinum og umhverfinu í hátíðarbúning fyrir stærsta golfmót ársins á Íslandi. Allt gengur samkvæmt áætlun og eini óvissuþátturinn er veðrið. Hér fyrir neðan má sjá myndir af framkvæmdum á Leirdalsvelli.