Fréttir

Aron Snær ánægður með fyrsta hringinn á þremur undir pari
Aron púttar fyrir fugli á 8. flöt.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 6. ágúst 2020 kl. 14:04

Aron Snær ánægður með fyrsta hringinn á þremur undir pari

„Þetta gekk bara nokkuð vel og ég er ánægður með þessa byrjun,“  sagði Aron Snær Júlíusson, GKG en hann er annar tveggja kylfinga í forystu á Íslandsmótinu í höggleik sem fer fram á Hlíðavelli í Garðabæ. Aron lék á þremur undir pari, 69 höggum eins og Tómas E. Hjaltesed úr GR.

Aron hefur verið einn af bestu kylfingum landsins undanfarin ár og vann eitt af stigamótum sumarsins í Leiru. Hann lék stöðugt golf á fyrsta hringnum og segist hafa leikið vel. „Ég missti tvö teighögg sem kostuðu mig högg, annað var í fínu lagi. Völlurinn er fínn, hann er ekki mjög langur og það er hægt að vinna högg á seinni níu holunum,“ segir Aron en það var einmitt það sem hann gerði.

Hann tapaði tveimur höggum á 5. braut sem er par 5, boltinn hjá lá illa eftir teighöggið og hann lenti í vandræðum. Hann lét það ekki á sig á fá og náði þremur fuglum á næstum 4 brautum, 6., 8. og 9. braut. Svo tapaði hann  höggi á 10. braut sem er stutt par 4 og býður upp í dans. Bolti Arons lá illa og hann náði ekki að bjarga sér úr vandræðunum. Hann vann það til baka og gott betur á 12. braut sem er par 5. Hann var aðeins með fleygjárn í innáhögginu eftir gott upphafshögg og setti boltann 5-6 metra frá og setti það pútt ofan í fyrir tveimur undir á holunni, erni. Síðan fylgdu pör og fugl á 18. holunni þar sem hann setti niður gott pútt. Þrír undir á fyrsta hring og Aron var mjög sáttur með það. „Já, þetta er fín byrjun og þetta leggst bara vel í mig,“ sagði hann við kylfing.is.

Aron slær upphafshögg á 9. braut en þar fékk hann einn af fjórum fuglum dagsins. Kylfingsmyndir/pket.

Aron bjargaði pari á 11. holu með frábæru höggi úr glompu sem hann setti alveg upp á stöng.