Bandaríkjamenn enn án sigurs í einstökum leik
Betri bolti eða fjórbolti var spilaður strax á eftir fjórmenningnum og ljóst var að Bandaríkjamenn þyrftu að girða sig í brók í Ryder bikarnum í Róm eftir útreið um morguninn á fyrsta keppnisdegi. Allir leikir nema einn voru í járnum allan tímann og fóru alla leið á 18. holuna, leikur 4 kláraðist á 14. holu, 5/3.
Þetta 1 1/2 stig Bandaríkjamanna kom allt úr jafnteflum, þ.e. þeir hafa ekki unnið einn leik, ótrúlegt.
Leikur 1
Viktor Hovland og Terrel Hatton á móti Justin Thomas og Jordan Spieth. Jafntefli
Þessi leikur var jafn á flestum tölum, Bandaríkjamenn komust einu sinni tvær holur upp en annars var þetta járn í járn. Frábært golf hjá báðum liðum. Norðmaðurinn setti langt pútt á 18. holu til að jafna leikinn.
Leikur 2
Jon Rahm og Nicolai Höjgaard á móti Scottie Scheffler og Brooks Koepka. Jafntefli
Þessi leikur var í járnum allan tímann, Jon Rahm sem er þriðji hæsti á heimslistanum, setti glæsilegt pútt niður á 18. holu fyrir erni og jafnaði þar með leikinn. Scottie Scheffler er efstur á heimslistanum og spilaði sömuleiðis frábært golf.
Leikur 3
Robert Macintyre og Justin Rose á móti Max Homa og Wyndham Clark. Jafntefli
Skotinn Macintyre fór illa að ráði sínu á 16. holu og þrípúttaði og Bandaríkjamenn komust þá 2 upp. Evrópumenn komu svo leiknum á lokaholuna og Justin Rose setti niður erfitt pútt fyrir sigri á holunni eftir að Max Homa hafi rétt misst sitt pútt.
Leikur 4
Rory McIlroy og Matt Fitzpatrick á móti Colin Morikawa og Xander Schauffele. 5/3
Rory hélt áfram á sömu braut og í morgun, alger slátrun í þessum leik. Matt Fitzpatrick lék frábærlega, fékk m.a. sex fugla í röð í upphafi hringsins.
Evrópumenn því með örugga forystu eftir dag eitt, 6 1/2 - 1 1/2. Aldrei í sögu Ryder bikarins hefur verið svona mikill munur á liðunum eftir fyrsta keppnisdag.