Fréttir

Baráttan milli Axels og Andra á Leirumótinu
Axel Bóasson slær á Bergvíkinni í dag.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 5. júní 2021 kl. 22:56

Baráttan milli Axels og Andra á Leirumótinu

Það lítur allt út fyrir það að baráttan um sigurinn í karlaflokki á Leirumótinu, þriðja stigamóti ársins á GSÍ mótaröðinni, verði milli Axels Bóassonar og Andra Más Óskarssonar en þeir tveir eru á átta og fimm höggum undir pari meðan næstu menn eru svo á tveimur höggum undir pari.

Axel lék vel við nokkuð erfiðar aðstæður í dag á Hólmsvelli. Hann fékk fjóra fugla en á móti fékk hann einn skramba. Hann kom því í hús á 70 höggum, eða tveimur höggum undir pari, og er því á samtals átta höggum undir pari eins og áður sagði.

Andri Már lék einnig á 70 höggum í dag. Hann fékk líkt og Axel fjóra fugla á hringnum í dag en hann fékk aftur á móti tvo skolla.

Einn í þriðja sæti á tveimur höggum undir pari er Sigurður Bjarki Blumenstein. Hann lék á 73 höggum í dag, eða höggi yfir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Andri Már Óskarsson.