Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Besti árangur Haralds á Áskorendamótaröðinni
Haraldur Franklín Magnús
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 14. nóvember 2020 kl. 16:31

Besti árangur Haralds á Áskorendamótaröðinni

Haraldur Franklín Magnús lék í dag fjórða og síðasta hringinn á Andalucía Challenge de Cadíz mótinu sem er hluti af Áskorendamótaröðinni. Fyrir daginn var Haraldur jafn í 17. sæti á samtals tveimur höggum undir pari. 

Hringinn í dag lék Haraldur á einu höggi undir pari og endaði því samtals á þremur höggum undir pari sem dugði honum í 14. sæti. Hringurinn byrjaði rólega hjá Haraldi en hann fékk átta pör og einn fugl á fyrri 9 holunum. Þá kom fjögurra holu kafli þar sem Haraldur fékk þrjá fugla og einn tvöfaldan skolla og var því á tveimur höggum undir pari. Hann fékk svo skolla á 17. holu og kom því í hús á einu höggi undir pari.

Þetta er besti árangur Haralds á Áskorendamótaröðinni en áður var 33. sæti á Northern Ireland Open mótinu hans besti árangur. Guðmundur Ágúst Krisjánsson var einnig á meðal keppenda en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn. 

Það var Spánverjinn Pep Angles sem sigraði á mótinu en hann lék hringina fjóra á samtals 14 höggum undir pari.

Hér má sjá lokastöðuna í mótinu.