Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

Birkir Már ráðinn framkvæmdastjóri Kiðjabergs
Þriðjudagur 2. júní 2020 kl. 17:54

Birkir Már ráðinn framkvæmdastjóri Kiðjabergs

Birkir Már Birgisson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Kiðjabergs. Hann tók til starfa í byrjun maí og mun einnig sjá um vallarstjórn klúbbsins en hann lærði golfvallarfræði á sínum tíma í Elmwood í Skotlandi.

Birkir Már þekkir vel til á Kiðjabergi þar sem hann var vallarstjóri 2007 til 2009. „Ég fór þaðan í stutt stopp í Brautarholtið áður en mér var boðið að taka við sem vallarstjóri Grafarholts og var í fimm ár þar áður en ég tók við sem yfirvallarstjóri GR. Ég var í því starfi í tvö ár, en snéri mér þá að ferðaþjónustunni og var sjálfstætt starfandi þar þangað til í mars síðastliðinn þegar allt fór á hliðina vegna Covid 19,“ segir Birkir á heimasíðu klúbbsins.

Er það ekki mikil áskorun fyrir þig að taka við sem framkvæmdastjóri GKB? 

„Jú, vissulega er þetta áskorun en ég þekki vel til hérna. Ég ætti að búa að nokkurri reynslu eftir að hafa unnið í kringum golfvelli í 17 ár. Hef alltaf haldið nánu sambandi við Gunnar Þorláksson, formann vallarnefndar GKB, síðan ég hætti og aðstoðað klúbbinn eftir fremsta megni. Mætti eiginlega segja að ég hafi aldrei alveg hætt hérna. Mér þykir ofboðslega vænt um fólkið í kringum klúbbinn og völlinn sjálfan.“ 

Hyggstu breyta einhverju í rekstri klúbbsins? 

„Einna helst vil ég reyna að fá fleiri hópa til okkar, stóra sem smáa. Erum með frábært klúbbhús og leyfi mér að fullyrða með einn besta vert landsins, sem sér um eldhúsið hérna á Kiðjabergi. Við ætlum okkur að vera vel undirbún fyrir líklega stærsta golfsumarið til þessa. Vonandi að veðrið verði okkur hliðhollt í sumar.“

Hverjir eru helstu kostir Kiðjabergsvallar, að þínu mati? 

„Helstu kostirnir finnst mér vera gríðarlegur fjölbreytileiki brauta og stórkostlegt útsýni á nánast öllum teigum. Held að allir sem spila hér í fyrsta skipti muni hverja einustu braut eftir hringinn. Sjálfur man ég vel þann dag þegar ég spilaði hérna fyrst. Upplifunin að ganga niður 13. brautina (sem þá var 4. hola) í fyrsta skipti, er mér enn í fersku minni. Alltaf minnisstætt líka þegar ég hitti tvo Dani sem voru að spila völlinn. Þeir tjáðu mér að þeir væru búnir að spila golf í 30 ár úti um allann heim og sögðu að þetta væri flottasti golfvöllur sem þeir höfðu spilað. Rakst síðan á þá seinna sama daginn þar sem þeir ákváðu að taka aðrar 18 holur.“

Séð yfir 17. og 1. flöt Kiðjabergs. Á neðri mynd er slegið af 15. teig.