Fréttir

Brian Morris 53 ára golfkennari leikur á PGA mótaröðinni í þessari viku
Catherine Zeta Jones og Michael Douglas eru á meðal þeirra sem notið hafa leiðsagnar Morris í gegnum tíðina.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
þriðjudaginn 26. október 2021 kl. 08:54

Brian Morris 53 ára golfkennari leikur á PGA mótaröðinni í þessari viku

PGA mótaröðin er leikin á Bermuda í þessari viku þegar Butterfield Bermuda Championship mótið fer fram.

Margir af bestu kylfingum heims leika á mótinu. Brian Morris 53 ára heimamaður og golfkennari á Ocean View Golf Course er kannski ekki einn af bestu kylfingum heims en þátttaka hans í mótinu vekur mikla athygli.

Morris greindist með krabbamein í heila rétt fyrir jólin árið 2019 og nokkrum dögum síðar á Þorláksmessu það sama ár fékk hann þær hræðilegu fréttir að krabbameinið hafi dreift sér um líkamann. Hann hefur þegar lifað lengur en læknar reiknuðu með við greininguna.

Morris hefur lengi dreymt um að fá að spreyta sig á PGA mótaröðinni og í þessari viku fær hann draum sinn uppfylltan eftir að hafa fengið boð frá styrktaraðilum mótsins.

Líf hans hefur ekki verið dans á rósum en hann missti bæði föður sinn og móður með stuttu millibili þegar hann var 19 ára gamall. Hann gat ekki hugsað sér að leika golf án föður síns og henti golfsetti sínu fram af kletti stuttu síðar. Hann lék ekki golf í heil 10 ár.

Hann byrjaði þó aftur fyrir tilviljun og útskrifaðist sem golfkennari frá Golf Academy í Orlando árið 2003.

Í starfi sínu hefur hann leiðbeint frægu fólki eins og Patrick Swayze, Catherine Zeta Jones og Michael Douglas. Mótið um helgina verður þó hápunkturinn á ferlinum.