Fréttir

Cameron Smith lék best allra á öðrum hring
Cameron Smith. Ljósmynd: golfsupport.nl/Joe Robbins/ism
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 15. júlí 2022 kl. 22:15

Cameron Smith lék best allra á öðrum hring

Ástralinn Cameron Smith leiðir Opna mótið eftir að hafa leikið á 64 höggum á öðrum hring og hefur tveggja högga forystu á nafna sinn, Bandaríkjamanninn, Cameron Young, sem var í forystu eftir fyrsta hringinn í gær.

Smith byrjaði daginn með látum og fékk fugla á þremur fyrstu holunum. Hann tapaði ekki höggi á hringnum og var með sex fugla og einn örn, átta undir pari í dag og er samtals á þrettán undir.

Cameron Young fataðist flugið lítillega í dag þegar hann lék holurnar átján á 69 höggum (-3). Young fékk fimm fugla á hringnum en skollar á annarri og fimmtándu holu setja hann tveimur höggum á eftir Smith fyrir þriðja dag.

Norður-Írinn Rory McIlroy og Norðmaðurinn Viktor Hovland eru jafnir í þriðja sæti en hástökkvari dagsins er Spánverjinn Sergio Garcia sem bætti sig um níu högg milli hringa og stökk upp um 83 sæti, Garcia er jafn í 36. sæti á þremur undir pari.

LIV Golf-arinn og Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson, lék vel í dag og er í baráttunni, aðeins einu höggi á eftir McIlroy og Hovland. Efsti maður heimslistans, Bandaríkjamaðurinn Scottie Scheffler er einu höggi á eftir DJ og enginn skildi afskrifa hann.

Staðan á mótinu

Niðurskurðarlínan miðast við par og er Svíinn Henrik Stenson vafalaust svekktur að hafa ekki náð niðurskurði en hann endaði á einu höggi yfir pari eftir tvo fyrstu dagana. Stenson, sem stóð uppi sem sigurvegari Opna mótsins 2016, fékk skolla á sautjándu og átjándu holu í dag og var því aðeins hársbreidd frá því að komast áfram.

Hinn eini og sanni Tiger Woods, þrefaldur sigurvegari mótsins, náði sér aldrei á strik og lauk leik meðal neðstu manna. Tiger, sem lék hringina tvo á 78 og 75 höggum, samtals níu höggum yfir pari, var vel fagnað þegar hann lauk leik í dag og átti hann í vandræðum með að leyna tilfinningum sínum þar sem hann gekk upp átjándu brautina.

Fyrstu menn fara út á þriðja hringinn upp úr klukkan hálfátta í fyrramálið á íslenskum tíma en síðustu ráshóparnir milli klukkan tvö og þrjú eftir hádegi á morgun.