Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Carlos fékk læknisskoðun í nándarverðlaun sem bjargaði lífi hans
Þriðjudagur 9. mars 2010 kl. 14:21

Carlos fékk læknisskoðun í nándarverðlaun sem bjargaði lífi hans

Kylfingurinn Carlos de Anda mun líklega aldrei gleyma höggi sem hann átti með 6. járni í júlí árið 2006. Hann var þar við keppni á góðgerðarmóti í heimaborg sinni í Mexíkó og vann nándarverðlaun á 4. holu.

„Ég komst að því seinna um kvöldið að ég hafði unnið mér inn fría læknisskoðun sem ég var frekar ósáttur með. Oft eru gefnar kylfur eða flatskjáir þannig að læknisskoðun voru ekki merkileg verðlaun,“ sagði de Anda en þessi læknisskoðun átti þó eftir að bjarga lífi hans.

„Konan sagði mér að fara í læknisskoðunina, sem mér fannst algjör óþarfi enda hafði ég alltaf verið frekar heilsuhraustur,“ segir de Anda en það kom lækninum hreinlega á óvart að hann skildi vera á lífi. Læknirinn sagði orðrétt: „Ég skil ekki hvernig þú ert ennþá á lífi.“

Rannsóknir leiddu í ljós að slagæðarnar voru tepptar og aðeins tímaspursmál hvenær de Anda myndi fá hjartaáfall. Hann fór því strax í aðgerð sem heppnaðist vel og lifir nú góðu lífi í Mexíkó. Carlos de Anda mun hins vegar aldrei gleyma högginu með 6-járninu sem bjargaði lífi hans.

Mynd: Carlos de Anda á 6-járninu að þakka að hann er á lífi í dag.

Örninn 2025
Örninn 2025