Dræverinn hjá Heiðari brotnaði rétt fyrir fyrsta hring - höggi frá því að komast áfram á stórmóti
Veigar Heiðarsson, 18 ára afrekskylfingur úr Golfklúbbi Akureyrar stóð sig mjög vel á sterkasta golfmóti 18 ára og yngri í heiminum, US Junior Amateur Championship sem fram fór á Trinity Forest og Brook Hollow völlunum í Texas, Dallas og lauk í gær. Veigar varð fyrir því að brjóta stærstu kylfuna í pokanum rétt fyrir fyrri hringinn í höggleiknum en endaði höggi frá 64 manna úrslitum.
Veigar fékk boð um að keppa á móti í ljósi sterkrar stöðu hans á heimslista kylfinga 18 ára og yngri en þar var hann í 85. sæti fyrir þetta mót. Margir heimsþekktir kylfingar hafa sýnt snilli sína á þessu móti en besti kylfingur heims, Scottie Scheffler, sigraði á þessu móti árið 2013 og fleiri fyrrum sigurvegarar eru m.a. Tiger Woods og Jordan Spieth.
Veigar lenti í veseni á fyrsta degi mótsins þegar „dræverinn“ hans brotnaði hálftíma fyrir rástíma. Hann var með annan „dræver“ í bílnum sem hann tók með sér út á völl en missti fjögur upphafshögg með honum og það kostaði hann verulega í fyrsta hring sem hann lék á +6.
Guðríður Sveinsdóttir, móðir hans var með honum og í færslu hennar á Facebook kemur fram að þau hafi brunað í næstu PGA stórverslun þar sem fjárfest var í nýrri kylfu eftir fyrri hringinn.
Gríðarlegur hiti var á meðan mótið fór fram í Dallas og þurfti stráksi m.a. að skipta reglulega um hanska því svitinn rann af honum. Þurrka þurfti kylfur fyrir hvert högg og drekka mikið. „Hann barðist fram á síðustu holu en endaði því miður einu höggi frá því að komast áfram og partýið því búið. Þetta er flottasta mót sem við höfum farið á, bæði varðandi alla umgjörð í kringum keppendur og síðan vellirnir sem virtust hafa verið lokaðir í einhvern tíma fyrir mótið því að brautirnar voru eins og þær væru ónotaðar,“ segir Guðríður.