Fréttir

Draumaúrslitaleikur
Sunnudagur 26. mars 2023 kl. 07:56

Draumaúrslitaleikur

Sannkölluð flugeldasýning var á Austin Country Club þegar 16 og 8 manna úrslitin í WGC Dell holukeppninni fóru fram. Fremstir í flokki fóru Scottie Scheffler og Rory McIllroy. Báðir eru komnir í undanúrslit þar sem Scheffler mætir Sam Burns og McIllroy mætir Cameron Young. Enginn hefur fram til þessa stigið feilspor í mótinu.

Rory McIllroy var með sannkallaða sýningu í gær en hann lék 36 holur, fyrst vann hann Lucas Herbert á átjándu holu og svo Xander Schauffele sömuleiðs á átjándu holu með glæsilegu fuglapútti. Það var í eina skiptið sem McIllroy var yfir í leiknum en Schauffele hafði haft frumkvæðið allan tímann. Á þessum 36 holum fékk McIllroy 17 fugla. Spilamennska hans verið nánast óaðfinnanleg fram til þessa.

Sannkölluð draumastaða gæti komið upp í dag ef að tveir fremstu kylfingar heims komast í úrslitaleikinn þeir McIllroy og Scheffler. Scottie Scheffler sigraði JT Poston í 16 manna úrslitum á átjándu og svo Jason Day 2&1 í 8 manna úrslitum.

Sam Burns vann Patrick Cantlay  2&1 og Mackenzie Huges 3&2. Cameron Young vann Billy Horschel 5&4 og Kurt Kitayama á átjándu með 1 holu. 

Spennandi lokadagur framundan á síðasta heimsmótinu í holukeppni.