Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Fréttir

Einn efnilegasti kylfingur landsins byrjaði í Portúgal og æfir í Danmörku í dag
Markús er einn efnilegasti kylfingur landsins.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 31. ágúst 2023 kl. 16:06

Einn efnilegasti kylfingur landsins byrjaði í Portúgal og æfir í Danmörku í dag

Stækkaði svo ört í fyrra að hann þurfti nýjar kylfur. Er með +1,8 í forgjöf á Íslandi, +2,4 í Danmörku. Dreymir um að spila á PGA mótaröðinni.

Markús Marelsson er einn efnilegasti kylfingur landsins en hann er sextán ára gamall og er nýlega fluttur til Danmerkur, þar sem hann æfir undir leiðsögn dansks þjálfara. Markús náði frábærum árangri á European young masters í sumar, lenti í öðru sæti en mótið er eitt virtasta unglingamót heims. Markús er nýbyrjaður í framhaldsskóla, leiðir hugann að háskólagolfinu í Bandaríkjunum og dreymir um að verða atvinnumaður.

Markús hefur oft búið erlendis, m.a. þar sem faðir hans, Marel Baldvinsson lék sem atvinnumaður í knattspyrnu. „Ég fæddist í Noregi þegar pabbi var að spila þar, svo fluttum við til Íslands þegar ég var eins árs gamall og við vorum á Íslandi þar til ég var sex ára gamall, þá fluttum við til Danmerkur. Við vorum þar í þrjú ár og fluttum þá til Portúgal og þá byrjaði ég í golfi, níu ára gamall. Ég byrjaði strax hjá þjálfara og náði fljótt mjög góðum tökum á íþróttinni. Ég æfði fótbolta líka, ætlaði mér að verða atvinnumaður eins og pabbi en svo hætti ég í boltanum fyrir tveimur árum til að einbeita mér alfarið að golfinu. Við vorum í Portúgal í eitt og hálft ár, fluttum þá aftur til Íslands en erum aftur flutt til Danmerkur. Þegar ég flutti til Íslands á sínum tíma fór ég að æfa hjá Keili, flottasti völlurinn á landinu, frábært  æfingasvæði og mér leist vel á þjálfarana þar, m.a Karl Ómar og  Björgvin Sigurbergsson en svo hætti hann nú reyndar fljótlega eftir að ég gekk í klúbbinn. Ég tók miklum framförum á þessum árum, keppti í Íslandsmóti fullorðinna þegar ég var þrettán ára og hef keppt þrisvar sinnum, síðast núna í sumar á Oddinum. Mér gekk vel myndi ég segja, frammistaðan var góð, ég var að spila vel en náði bara ekki að skora völlinn. Golfið er stundum svona, maður getur verið að slá illa en samt að skora vel og öfugt.“

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Hápunktur sumarsins hjá Markúsi var hið virta unglingamót, European young masters. „Það var gaman að taka þátt í þessu móti í Slóvakíu, frábær völlur og gott veður allan tímann. Ég spilaði mjög stöðugt gott golf alla dagana, var líklega sá eini sem týndi ekki bolta alla þrjá dagana. Ég var einu höggi á eftir tveimur efstu fyrir lokadaginn en Ben Bolton frá Englandi lék síðasta hringinn á -6 og endaði því á -11, ég lék á -1 og endaði í öðru sæti á -5. Hann var einfaldlega betri í þessu móti en ég var mjög ánægður með frammistöðu mína sem skilaði 2.sæti.

Þegar við fluttum til Danmerkur byrjaði ég hjá þjálfaranum í golfklúbbnum í heimabænum okkar í Jótlandi, mér líst mjög vel á hann. Ég gat reyndar lítið hitt hann í sumar því ég var mikið að keppa á Íslandi og annars staðar en núna er ég byrjaður á fullu hjá honum og við náum vel saman og ég er stöðugt að taka smá skref í rétta átt, en svo hef ég verið að stækka ansi mikið að undanförnu og þurfti því að fá stærri kylfur, það tók smá tíma að venjast því en nú er allt á réttri leið.

Ég á þrjú ár eftir í framhaldsskóla svo ég hef nægan tíma til að hugsa næstu skref en ég veit að háskólar í Bandaríkjunum eru byrjaðir að fylgjast með mér. Ef ég held áfram á sömu braut ætti ég að eiga möguleika á að fara í góðan háskóla og spila golf við bestu skilyrði en ég hef ekki ennþá gert upp við mig hvort það sé leið sem ég vill fara. Markmiðið er síðan einfalt hjá mér, ég ætla að leggja hart að mér alla daga til að verða eins góður og ég mögulega get,“ sagði Markús að lokum.

Markús með hinum þekkta kylfingi, Paul McGinley

Markús í Portúgal, strax byrjaður að sanka að sér verðlaunum.

Ungur Markús

Skorkort Markúsar í European young masters, fyrri níu.

Skortkort Markúsar í European young masters, seinni níu.