Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Einn fremsti golfvallahönnuður heims látinn
Pete Dye.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 12. janúar 2020 kl. 19:50

Einn fremsti golfvallahönnuður heims látinn

Einn virtasti golfvallahönnuður heims, Pete Dye, lést síðastliðinn fimmtudag 94 ára að aldri.

Dye, sem er meðal annars í frægðarhöll golfsins (e. „World Golf Hall of Fame“), hannaði yfir 100 golfvelli um allan heim og eru margir af þeim einhverjir af þekktustu völlum í heimi. Meðal annars hannaði hann Habour Town Golf Links völlinn, Whistling Straits og TPC Sawgrass. Sá síðast nefndi er eflaust hvað þekktastur fyrir 17. holuna sem er par 3 hola þar sem flötin er eyja.

Margir hafa tjáð sig um fráfall Dye, meðal annars yfirmaður PGA mótaraðarinnar, Jay Monahan, en hann sagði að Dye væri einn af mikilvægustu hönnuðum golfsögunnar og hann hafi verið sannur vinur mótarðarinnar.

Jack Nicklaus, sem snéri sér að golfvallahönnun eftir sinn feril, þakkaði Dye fyrir að kynna sig fyrir golfvallahönnun. 

Vellirnir hjá Dye voru þekktir fyrir að vera fljótir að refsa kylfingum fyrir slæm högg. Snedeker, sem vann RBC Heritage mótið árið 2011, en mótið er leikið á Harbour Town Links vellinum, sagði það að hann hefði látið kylfingum líða illa á vellinum.

„Hann var goðsögn þegar kom að golfvallahönnun. Hann lét þér líða óþægilega allan hringinn og hann gerði það sjónrænt. Hann fékk þig til að hugsa. Þú virðir hann fyrir alla þá velli sem hann hefur hannað en meðan maður leikur vellina hans þá þoldir þú hann ekki.“