Er Ruffels næsti Jason Day?
Hinn ástralski Ryan Ruffels hefur gerst atvinnumaður. Ruffels hefur vakið mikla athygli með góðri spilamennsku sem áhugamaður og var í fyrsta sæti á styrkleikaflokki áhugamanna í Ástralíu þangað til í gær þegar hann tilkynnti að hann hefði afsalað sér áhugamannaréttindum.
Hinn sautján ára gamli Melbourne búi hefur nú í kjölfarið skrifað undir samning við Wasserman Media en það er sama fyrirtæki og sér um næst besta kylfing heimsins og landa Ruffels, sjálfan Jason Day.
„Ég hef verið að bíða eftir þessum degi“ sagði Rufels. „Loksins er kominn tími á að taka stóra skrefið.“
Ruffels hefur nú þegar fengið boð til þess að taka þátt í tveimur mótum á PGA mótaröðinni en það fyrsta er Farmers Insurance mótið sem fer fram í lok mánaðarins. Tveimur vikum seinna verður kappinn svo mættur á Pebble Beach en hann tekur einnig þátt í AT&T National mótinu.
Ruffels vonar að hann fái fimm boð í viðbót á tímabilinu en kylfingar mega alls fá sjö boð í mót á PGA mótaröðinni á einu tímabili.
Þrátt fyrir að vera aðeins sautján ára gamall þá telur Ruffels sig vera tilbúinn í atvinnumennskuna. „Ég veit að fólk mun efast um mig vegna aldursins. Ég held að þetta sé rétti tíminn fyrir mig. Ég hef gert allt sem ég get sem áhugamaður“ sagði Ruffels en hann var í 13. sæti á heimslista áhugamanna þangað til í gær.