Fréttir

Evrópumótaröð karla: Smith með eins höggs forystu í Þýskalandi
Jordan Smith.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 22. júní 2019 kl. 21:04

Evrópumótaröð karla: Smith með eins höggs forystu í Þýskalandi

Þriðji hringur BMW International Open mótsins var leikinn í dag og er það Englendingurinn Jordan Smith sem er í forystu eftir daginn. Forysta hans er þó aðeins eitt högg og því er von á spennandi lokadegi á morgun.

Heimamaðurinn Martin Kaymer var í forystu fyrir daginn í dag en hann átti erfiðan dag. Hann kom í hús á 75 höggum, eða þremur höggum yfir pari, og er hann því jafn í níunda sæti á samtals á átta höggum undir pari.

Smith átti einn af betri hringjum dagsins er hann kom í hús á 66 höggum, eða sex höggum undir pari. Á hringnum í dag gerði Smith engin mistök, hann fékk sex fugla og restina pör. Hann er samtals á 13 höggum undir pari.

Jafnir í öðru sæti eru þeir Matthew Fitzpatrick og Matthias Schwab. Þeir léku báðir á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari, og eru þeir samtals á 12 höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.