Fréttir

Sextán ára komst í gegnum niðurskurðinn á PGA móti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 8. maí 2024 kl. 10:31

Sextán ára komst í gegnum niðurskurðinn á PGA móti

Enn ein vonarstjarnan kom fram á sjónarsviðið á PGA mótaröðinni um síðustu helgi. Englendingurinn Kris Kim lék á Byron Nelson mótinu og komst í gegnum niðurskurðinn og gott betur því hann endaði í 65. sæti á mótinu og lék á sex höggum undir pari.

Hann er yngsti áhugamaðurinn til að komast í gegnum niðurskurðinn á PGA móti síðustu níu árin og sá fimmti yngsti í sögunni. Kim hefur þegar skrifað nafn sitt í sögubókina meðal áhugamanna en hann hefur unnið marga sigra þar undanfarin ár. Kim er meðlimur í Walton Heath golfklúbbnum í Surrey á Englandi en það er einn af eldri og þekktari golfvöllum Bretlands en Ryder bikarinn hefur m.a. farið þar fram.

Strákurinn á ekki langt að sækja golfhæfileikana því móðir hans, Ji-Hyun Suh var atvinnukylfingur og lék meðal þeirra bestu í kringum 1990. Hún er fædd í S-Kóreu en flutti til Englands til að kenna golf eftir keppnisferilinn og þar er Kim fæddur.

„Hún er þjálfarinn minn og við tölum um allt saman, um andlega þáttinn þar sem er mikilvægt að einbeita sér að hverju höggi og ýta slæmum höggum frá sér,“ sagði Kim sem var í evrópska Ryderliði ungmenna sem sigraði það bandaríska í Róm á Ítalíu viku fyrir Ryder keppnina. Hann er þegar kominn með samning við eitt af stóru merkjunum í golfheiminum, Taylor made, og fékk í boð í Byron Nelson mótið í gegnum stóra styrktaraðila. Kim ætlar að ljúka námi en stefnir svo á atvinnumannaferil á næstu árum.