Fréttir

Guðrún Brá hefur leik á Evrópumótaröðinni í febrúar
Guðrún Brá naut aðstoðar Björgvins föður síns á Írska mótinu í sumar. Hún jafnaði við hann í fjölda Íslandsmeistaratitila þgar hún sigraði á Íslandsmótinu á Hvaleyrinni. Þá vann hún sinn fjórða titil.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 6. janúar 2026 kl. 10:47

Guðrún Brá hefur leik á Evrópumótaröðinni í febrúar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili mun hefja leik á LET Evrópumótaröðinni, efstu deild kvenna, í febrúar. Hún segir í áramótapistli á Facebook að hápunktur sumarsins hafi verið sigur á Íslandsmótinu á Hvaleyrinni en endirinn á árinu 2025 hafi verið góður þegar hún tryggði sér þátttökurétt á LET eftir úrtökumót í Marakkó í desember.

Guðrún þakkar sínu besta fólki sem var með henni, kylfusveini og þjálfurum, fyrirtækjunm, fjölskyldunni og vinum, fyrir mikinn stuðning og segir m.a.:

„Ég átti gott og lærdómsríkt keppnistímabil árið 2025. Eitt af helstu markmiðum mínum fyrir tímabilið var að vinna mér aftur fullan þátttökurétt á Evrópumótaröð kvenna (LET), og allt tímabilið mótaðist af þeirri vegferð. Ég hóf keppnisárið í Suður-Afríku í febrúar, þar sem ég keppti á fimm mótum á Sunshine Tour yfir tveggja mánaða tímabil. Þar náði ég góðum árangri, og besti árangur minn var 6. sæti. Með góðri frammistöðu á þessum mótum tryggði ég mér staðfestan þátttökurétt á tveimur LET-mótum árið 2026. Yfir sumarið keppti ég á LET mótaröðinni. Þar sýndi ég stöðuga spilamennsku yfir tímabilið og náði niðurskurði í 7 af 11 mótum. Besti árangur minn var 35. sæti á móti í Svíþjóð.

Hápunktur sumarsins var sigur á Íslandsmeistaramótinu, sem fram fór á heimavelli mínum í Keili, þar sem ég tryggði mér titilinn eftir æsispennandi umspil. Keppnisárið lauk á úrtökumóti LET í Marokkó. Þar hóf ég leik í þriggja daga undankeppni, lék stöðugt og gott golf og endaði í 3. sæti á -5, sem tryggði mér sæti í lokamótinu. Í lokamótinu hélt ég áfram góðum leik, lauk mótinu á -8 og endaði í 24. sæti. Sá árangur veitir mér nánast fullan þátttökurétt á LET mótaröðinni á næsta keppnisári. Ég er jafnframt eini íslenski kylfingurinn með þátttökuréttindi í efstu deild. Endaði svo árið að vera valin kvennkylfingur ársins.

Ég er búin að njóta frísins yfir áramót og hlaða batteríin. Nú hefjast æfingar aftur með það markmið að vera klár í fyrsta mót í febrúar.

Enn og aftur vil ég þakka öllum fyrir stuðninginn á liðnu ári og kann ég virkilega vel að meta það að þið fylgist með mér og hvetjið mig áfram. Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka samfylgdina á liðnu ári. Ég hlakka til að takast á við golfárið 2026, nýjum og skemmtilegum verkefnum.“