Fréttir

Evrópumótaröð kvenna: Celine Herbin tryggði sér sigurinn á lokaholunni
Celine Herbin.
Sunnudagur 19. maí 2019 kl. 14:00

Evrópumótaröð kvenna: Celine Herbin tryggði sér sigurinn á lokaholunni

La Reserva de Sotogrande Invitational mótinu á Evrópumótaröð kvenna lauk nú fyrir skömmu og var það hin franska Celine Herbin sem bar sigur úr býtum. Hún lauk leik á samtals 6 höggum undir pari og sigraði því með einu höggi.

Herbin lék lokahringinn á þremur höggum undir pari og tryggði sér sigurinn með fugli á 18. holu. Esther Henseleit frá Þýskalandi endaði í öðru sæti á samtals 5 höggum undir pari. Hún var jöfn Herbin fyrir lokaholuna en fékk aðeins par og þurfti því að sætta sig við 2. sæti.

Herbin og Henseleit voru með nokkuð forskot á næstu kylfinga en þrjár konur enduðu jafnar í þriðja sæti á samtals tveimur höggum undir pari.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir voru á meðal keppenda en þær komust ekki í gegnum niðurskurðinn.

Hér má sjá lokastöðuna í mótinu.

Rúnar Arnórsson
[email protected]