Fannar Ingi sigraði Hákon og fagnaði Íslandsmeistaratitlinum
Fannar Ingi Steingrímsson úr Golfklúbbi Hveragerðis varð í dag Íslandsmeistari í holukeppni í flokki 15-16 ára. Fannar og Hákon Örn Magnússon úr Golfklúbbi Reykjavíkur áttust við í úrslitaleiknum og þar sigraði Fannar nokkuð örugglega 5/3.
Kristján Benedikt Sveinsson úr Golfklúbbi Akureyrar sigraði Arnór Snæ Guðmundsson úr Golfklúbbnum Hamri á Dalvík í leiknum um þriðja sætið 5/4.
Öll úrslit úr þessum flokki má sjá hér:
Í undanúrslitum mættust Fannar og Kristján þar sem sá fyrrnefndi sigraði í hörkuleik 2/1. Hákon og Arnór áttust við í hinni undanúrslitaviðureigninni og þar réðust úrslitin á lokaholunni þar sem Hákon hafði betur 1/0.
Henning Darri Þórðarson úr Keili sem sigraði á tveimur fyrstu mótunum á Íslandsbankamótaröðinni fékk frávísun eftir höggleikskeppnina á föstudaginn. Hann skrifaði undir skorkort sem var ekki rétt skráð og fékk Henning því ekki að taka þátt í 16 manna úrslitum keppninnar.
Hákon Örn Magnússon úr GR horfir hér á eftir upphafshögginu á 3. braut á Urriðavelli í dag.
Kristján Benedikt Sveinsson úr GA horfir hér á eftir upphafshögginu á 13. braut á Urriðavelli.
Arnór Snær Guðmundsson slær hér á 13. teig í dag á Urriðavelli.