Flott ár hjá Keili - hlaut ÍSÍ bikarinn í fjórða sinn
Golfkúbburinn Keilir hlaut ÍSÍ bikarinn 2025 en viðurkenningin er veitt því félagi sem talið er að hafi skarað framúr í Hafnarfirði á árinu. Bikarinn var fyrst veittur 2005 og er þetta í 4 skiptið sem Keilir fær hann afhendann. Árið var mjög gott hjá klúbbnum í rekstri og árangri.
Það sem félagið fær viðurkenninguna fyrir eru nokkrir þættir eins og félagsleg uppbygging frá yngri flokkum til afreksflokka, námskrá félags eða deildar og framkvæmd henna, menntun þjálfara og íþróttalegur árangur.
Guðmundur Örn Óskarsson formaður Keilis veitti viðurkenningunni móttöku í hófi sem haldið var á milli jóla og nýárs.
Á aðalfundi Keilis í desember var Guðmundur endurkjörinn formaður klúbbsins. Rekstur klúbbsins gekk vel á síðasta ári, afkoman var betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Mikil aukning í tekjum milli ára má reka til lengra rekstrartímabils veitingasölunnar og bættrar afkomu æfingasvæðisins eins og á síðasta ári.
Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 44,3 mkr. á árinu 2025 samanborið við 28,9 mkr. árinu áður.
Árið 2025 var viðburðaríkt hjá Keili en stærsta mót ársins, Íslandsmótið í golfi, var haldið á Hvaleyrarvelli og þótti takast mjög vel. Kylfingar í Keili stóðu sig vel, Guðrún Brá Björgvinsdóttir varð Íslandsmeistari kvenna og þá vann GK flesta titila allra klúbba í flokkum 15 ára og yngri.

