Fréttir

Flottur Hamarsvöllur á alvöru golf-rísorti í Borgarnesi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 28. maí 2020 kl. 14:40

Flottur Hamarsvöllur á alvöru golf-rísorti í Borgarnesi

„Völlurinn kemur ágætlega undan vetri en það er þó ennþá frost í honum. Þetta lítur samt vel út og framhaldið lofar góðu,“ segir Jóhannes Ármannson, framkvæmdastjóri og vallarstjóri Golfklúbbsins Hamars í Borgarnesi.

Hamarsvöllur hefur verið þétt setinn að undanförnu en hann opnaði 9. maí en það er um þremur vikum síðar en í fyrra en þá var mikil veðursæld í apríl sem hjálpaði til.

Mikil vinna í flötum undanfarin ár

Það vakti athygli fréttamanns kylfings.is hvað Hamarsvöllur var í góðu standi í lok maímánaðar. Flatir voru góðar og teigar í fínu lagi. Jóhannes segir að það hafi verið lögð mikil vinna í flatir undanfarin ár og yrði áfram. Meðal annars hafi verið unnið í því að skipta um grastegund en hann segist hafa stúderað mikið hvað henti vellinum sem er svokallaður „inland“ völlur. Það þurfi að huga að því þegar jarðvegshitinn sé seinni að koma upp en í völlum nærri sjó. „Vorið núna var miklu kaldara en í fyrra en það hefur verið góð traffík undanfarnar helgar og við finnum fyrir miklum áhuga næstu vikurnar. Hótelið hefur verið fullbókað síðustu helgar og það er mikið pantað í sumar. Við erum í góðu samstarfi með Hótel Hamri sem sér um afgreiðslu fyrir okkur,“ segir Jóhannes en Hamar er eitt af fáum golf-„rísortum“ á Íslandi, þar sem hótelgisting er alveg við golfvöllinn. Á Golfboxinu er hægt að panta golf á Hamri og ganga frá greiðslu en hægt er að panta teigtíma með fjögurra daga fyrirvara. Hafi kylfingar áhuga á að panta með lengri fyrirvara en það þá stendur það til boða gegn vægu aukagjaldi.

Flott golf-rísort

Mikil vinna hefur átt sér stað á Hamarsvelli undanfarin ár. Það sjá allir sem koma á þennan skemmtilega völl. Hann er mjög fjölbreyttur og tré og fallegt umhverfi setur skemmtilegan svip á völlinn. Nokkrar breytingar áttu sér stað fyrir nokkrum árum þar sem nýjar brautir voru teknar í notkun og vellinum „snúið“. Átjánda braut er núna við hótelið og því gaman að ljúka leik rétt hjá 19. Holunni. Hótelið hefur verið vinsælt undanfarin ár en nú stendur það Íslendingum til boða á hagstæðu verði þar sem í boði er golf og gisting með mat. Á því eru vel útbúin 54 herbergi.Heitur pottur er fyrir utan og þar mátti sjá kylfinga á góðri stund eftir golfleik. Veitingastaðurinn er rómaður og því er óhætt að segja að aðstaðan sé til fyrirmyndar.

„Það er mikið af pöntunum frá hjónum og pörum en líka litlum hópum sem ætla greinilega að mæta saman í sumar. Við erum líka með vinsæl mót eins og hjóna- og parakeppnina í lok júní. Við erum því mjög sæl með stöðuna og erum spennt fyrir golfsumrinu sem er hafið,“ sagði Jóhannes.

Átjánda flötin, hótelið og 19. holan bíða eftir leik.

Hamarsvöllur í Borgarnesi