Fréttir

Forsetavöllurinn í Urriðavatnsdölum gæti orðið sá fyrsti til að hýsa atvinnumannamót
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 18. janúar 2024 kl. 18:44

Forsetavöllurinn í Urriðavatnsdölum gæti orðið sá fyrsti til að hýsa atvinnumannamót

Forsetavöllurinn í Urriðavatnsdölum gæti orðið fyrsti golfvöllurinn á Íslandi til að hýsa stórmót atvinnumanna. Stækkun Urriðavallar úr 18 í 27 holur mun líklega hefjast á næsta ári og verkefnið klárast á næstu 4-5 árum. Forsetavöllurinn er úrval 18 holna af tuttugu og sjö. Íslenskt umhverfi nýtur sín vel á Urriðavelli og Edwin Roald, golfvallahönnuður segir framtíðina bjarta.

„Júlíus Rafnsson, fyrrverandi forseti Golfsambands Íslands á þessa hugmynd og nafnið á vellinum tengist honum. Hugmyndin á sér einhverjar fyrirmyndir úti í heimi, m.a. á Royal Melbourne vellinum í Ástralíu,“ segir Edwin Roald, golfvallahönnuður en hann hefur hannað níu nýjar brautir á Urriðavelli Oddfellowa og gert tillögu að 18 holu Forsetavelli.

Urriðavöllur er rúmlega þrítugur golfvöllur í Urriðavatnsdölum nærri Heiðmörk í Garðabæ. Opnaði sem 9 holu völlur 1990 en 18 holur 1997. Frá fyrstu dögum hefur verið staðið mjög myndarlega að allri uppbyggingu og óhætt er að segja að Urriðavöllur hafi verið í miklu sviðsljósinu í fyrrasumar þegar Íslandsmótið í golfi fór þar fram. Bestu kylfingar landsins mættu til leiks þar sem fimmtíu karlkylfingar og nærri tugur kvenna voru með núll í forgjöf eða lægra. Veðrið og allar aðstæður voru mjög góðar en þrátt fyrir það voru ekki nema örfáir sem léku „á forgjöfinni“ á 72 holum. Það segir nokkuð um erfiðleikastuðul vallarins.

Atvinnumannamót á Urriðavelli

„Ég er búinn að stilla upp 18 holum á Forsetavellinum en þetta er dæmi um hvernig völlurinn gæti litið út, ekki endilega lokaútgáfa,“ segir Edwin þegar hann er spurður hvernig han sjái fyrir sér úrvals 18 holur á 27 holu svæði, - sem yrði fyrsti golfvöllurinn á Íslandi sem gæti hýst mót atvinnukylfinga. „Ein af fyrstu forsendum fyrir því að hægt sé að fá stórmót atvinnumanna til Íslands er lengd vallarins. Forsetavöllurinn er rúmlega 6700 metrar en það er auðvitað teygjanlegt líka. Brautir eru iðulega styttar á mótaröðum atvinnumanna af ýmsum ástæðum. Tvö önnur sérstök dæmi gæti ég nefnt. Ég legg upp með að samtengja hluta úr þremur brautum eins og þær eru í dag, 15., 16. og 17. braut. Teigur yrði í Bollanum, 15. holu, slegið inn á brautina á sextándu og svo væri flötin á sautjándu. Þetta yrði glæsileg par 5 braut og myndi hæfa vel toppkylfingum. Þá yrði fyrsta brautin par 3 sem er fátítt en þekktasta dæmið er líklega 1. brautin á Royal Lytham vellinum í Englandi en þar er Opna breska haldið reglulega. Sameining núverandi fyrstu og annarar brautar er einnig möguleiki. Svo er hægt að nefna að á svona stórmóti yrði að vera veglegt æfingasvæði og þar sjáum við fyrir okkur að nýta Ljúflinginn, þar sem slegið væri á grasi. Einn af fleiri jákvæðum punktum væri staðsetningin á höfuðborgarsvæðinu og aðgengi að vellinum,“ segir Edwin og bætir við að Urriðavöllur væri líka með séreinkenni landsins, eins og hraun, sjávarsýn á köflum og umhverfi allt fjölbreytt og stórbrotið.

Fjórar nýjar í hrauninu

Gert er ráð fyrir að leggja fjórar nýjar golfbrautir í Urriðakotshrauni sem var friðað nýlega sem fólkvangur. Markmiðið með því var að gera svæðið aðgengilegra og vernda hraunið auk þess að skapa góðar aðstæður til útivistar. Á Forsetavellinum er blanda af eldri brautum og nýjum.

En hvernig hefur verið að vinna að þessu verkefni?

„Fyrir mig er þetta búið að vera mikil áskorun en mjög skemmtileg. Þetta hefur tekið mjög langan tíma því kröfur til þessa verkefnis af hálfu yfirvalda hafa verið mjög miklar og strangari en hafa verið gerðar til golfvalla hingað til. Samstarf opinberra og einkaaðila í þessu máli hefur gengið mjög vel, verið til fyrirmyndar.“

Þessi völlur yrði eitthvað nýtt og spennandi fyrir atvinnumenn og auðvitað alla aðra?

„Ég vona það og trúi því. Það er lykilatriði að búa til völl sem fær hjarta kylfingsins til að slá hraðar en auðvitað að veita sem flestum skemmtun. Urriðavöllur og allt svæðið við hann er sérstakt og mjög íslenskt. Framtíðin á Urriðavelli ætti að vera björt.“

Urriðavöllur stækkar í 27 holur.

Í meðfylgjandi myndbandi (hér að neðan) má sjá áhugaverðar skýringar með breytingum á Urriðavelli úr 18 í 27 holur.