Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Frábær viðsnúningur hjá Guðmundi á Norður-Írlandi
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 3. september 2020 kl. 18:26

Frábær viðsnúningur hjá Guðmundi á Norður-Írlandi

Það var Guðmundur Ágúst Kristjánsson sem lék best af íslensku kylfingunum á fyrsta degi Northern Ireland Open mótinu sem fram fer á Áskorendamótaröðinni. Hann er eftir daginn jafn í sjötta sæti á tveimur höggum undir pari. Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús eru einnig á meðal keppenda.

Guðmundur byrjaði hringinn ekki vel og var kominn á þrjú högg yfir par eftir níu holur. Hann náði þó með frábærri spilamennsku að snúa blaðinu við á síðari níu holunum. Á þeim fékk hann fimm fugla og tapaði engu höggi. Hann kom því í hús á 68 höggum eða tveimur höggum undir pari. Eins og áður sagði er Guðmundur jafn í sjötta sæti tveimur höggum á eftir efsta manni.

Andri og Haraldur léku aftur á móti báðir á 73 höggum eða þremur höggum yfir pari. Hringirnir hjá þeim voru mjög ólíkir. Andri fékk þrjá skolla og restina pör á meðan Haraldur fékk fjóra fugla en á móti fékk hann sjö skolla. Þeir eru jafnir í 75. sæti eftir daginn.

Eftir morgundaginn verður niðurskurður og eins og staðan er núna eru það þeir kylfingar sem eru á tveimur höggum yfir pari og betur sem komast áfram.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Andri Þór Björnsson.


Haraldur Franklín Magnús.