Fyrsta markmiðið að verða betri en pabbinn
Patrik Snær Atlason er hvorki þekktur kylfingur né tónlistarmaður en flestir ef ekki allir ættu að kveikja á tónlistarnafninu hans, Prettyboitjokko. Hann hóf ekki golfiðkun fyrr en í covid og vildi óska þess að hafa byrjað fyrr en fótboltaspark átti sviðið fram til 27 ára aldurs, hann er 31. árs í dag. Pabbi hans, Atli Einarsson, var lunkinn sóknarmaður á sínum tíma og varð m.a. Íslandsmeistari með Víkingum árið 1991. Patrik er með fimmtán í forgjöf í dag og hans fyrsta markmið er að verða betri en pabbi sinn, sem er með átta í forgjöf.

Við skulum leyfa listamannsnafninu að eiga sviðið en styttum það í Pretty.
„Ég dauðsé eftir að hafa ekki byrjað fyrr í golfi og kenni í raun pabba mínum um það, hann átti að senda mig á golfnámskeið þegar ég var yngri. Ég gaf fótboltanum í raun allt of mikinn séns, var búinn að slíta bæði krossbönd, ristarbrotna, rífa liðþófa í hné og hefði einfaldlega átt að sjá fótboltasæng mína upp reidda miklu fyrr. Eins og svo margir byrjaði ég í golfi árið 2020 á covid-tímanum, það mátti ekki gera neitt en það var hægt að komast í golf án þess að taka flaggið upp úr.


Styrkleiki minn í golfinu liggur í járnahöggunum, þ.e. höggið inn á flöt. Ég grínast með það að ég þurfi ekkert að æfa vipp því ég hitti alltaf grínið. Ég segi kennaranum mínum í Keili að ef hann sjái mig á æfingasvæðinu að æfa járnahögg, eigi hann að reka mig þaðan og senda mig á púttflötina.
Markmið mitt í golfinu nær nú ekki lengra en að verða bestur í fjölskyldunni, ég á tvö yngri systkini sem byrjuðu fyrr í golfi en ég en ég er samt ennþá betri en þau en pabbi á ennþá nokkur högg á mig. Það yrði gaman að komast niður fyrir tíu í sumar og ég ætla að reyna spila meira í mótum, ég hef bara látið þau skor meta forgjöfina en sumir skrá líka æfingahringi. Hausinn á mér hefur bara ekki verið nógu góður í mótum, ég þarf að bæta það og með því að leggja smá rækt við stutta spilið og púttin þá hef ég fulla trú á að ég nái gamla fljótlega,“ segir Pretty.

Tónlist og golf í staðinn fyrir tuðruspark
Pretty fékk tónlistarlegt uppeldi má segja, mamma hans hvatti hann áfram á yngri árum en það var ekki fyrr en hann setti knattspyrnuskóna upp í hillu, að eitthvað fór að gerast í tónlistinni hjá honum en blaðamanni er til efs að mörg dæmi séu um að tónlistarmaður byrji sinn feril 28 ára gamall og skjóti sér nánast rakleitt upp á stjörnuhimininn.
„Ég var sennilega um tíu ára gamall þegar mamma sendi mig í söngskóla og út frá því fékk ég tækifæri á að syngja í morgunsjónvarpsþættinum Ísland í bítið. Þegar ég mætti í skólann næsta dag fannst mér eins og allir krakkarnir væru að hlægja og gera grín af mér og sagði mömmu míkrófóninn færi upp í hillu og einbeitti mér bara að fótboltanum. Það var ekki fyrr en ég hætti að sparka sem ég sótti míkrófóninn upp í hillu og hef ekki litið til baka síðan má segja. Ég og Ingimar Tryggvason semjum lögin saman og ég get ekki annað en verið ánægður með framgang minn í tónlistinni til þessa, ég hef nóg að gera við að koma fram og það er frábært. Tónlistin og golfiðkun fara einkar vel saman myndi ég segja, ég er mikið bókaður í sumar og ætla njóta þess í botn og vonandi að lækka duglega í forgjöf,“ sagði Patrik Snær eða Prettyboitjokko eins og hann kallar sig sem tónlistarmaður.


