Fyrsti sigur Rahm á Evrópumótaröðinni kom á Opna írska mótinu
Spánverjinn Jon Rahm fagnaði sigri á Opna írska mótinu sem fór fram um helgina á Evrópumótaröðinni í golfi. Rahm sýndi fádæma yfirburði í mótinu og endaði að lokum sex höggum á undan næsta manni. Samtals lék hann á 24 höggum undir pari.
Rahm hóf lokadaginn jafn Bandaríkjamanninum Daniel Im í forystu á 17 höggum undir pari. Eftir glæsilegan örn á 4. holu var hann orðinn einn í forystu og þá var ekki aftur snúið.
Sigur Rahm var hans fyrsti á Evrópumótaröðinni en hann hefur nú þegar sigrað á PGA mótaröðinni á þessu tímabili. Rahm er einungis 22 ára gamall og hefur stimplað sig inn sem einn sá besti í heimi með frammistöðu sinni undanfarna mánuði.
Matthew Southgate og Richie Ramsey enduðu jafnir í öðru sæti á 18 höggum undir pari.
Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.