Garcia ætlar að spila frítt á Evrópumótaröðinni í Sádí-Arabíu á næsta ári
Eitt af eftirminnilegustu atvikum ársins á Evrópumótaröðinni er eflaust þegar Sergio Garcia lét reka sig úr móti fyrir slæma hegðun. Mótið sem um ræðir var Saudi International og var hann rekinn úr keppni eftir að hafa vísvitandi eyðilagt nokkrar flatir með pútternum sínum.
Mörgum fannst refsingin ansi væg, þar á meðal efsti maður heimslistans, Brooks Koepka, sem sagði að Garcia hefði hagað sér eins og barn.
Fyrir það eitt að taka þátt í mótinu í ár fékk Garcia eitthvað kringum 650.000 dollara. Þrátt fyrir að vera rekinn úr mótinu var hann ekki beðinn um að skila peningnum.
Spánverjinn vill greinilega reyna að bæta upp fyrir hegðun sína fyrr á þessu ári því hann hefur samþykkt að þiggja engar greiðslur fyrir að vera með á næsta ári þegar mótið fer fram í annað skiptið.